Framboð til stjórnar UMFÍ
Sambandsaðili: Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA)

Fyrri félagsstörf og bakgrunnur:
Ég er fjölmiðlafræðingur að mennt ásamt því að hafa stundað nám við grafíska hönnun í Myndlistarskólanum á Akureyri. Í dag starfa ég sem sviðsstjóri Netvís - Netöryggismiðstöðvar Íslands. Ég stofnaði og heldur úti Tengslaneti um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi auk þess sem ég leiði vinnuhóp forseta Íslands sem ber vinnuheitið „Símafriður.“
Ég er reyndur fyrirlesari með fjölbreyttan bakgrunn m.a. í fjölmiðlum, knattspyrnuþjálfun og félagsstarfi ungmenna. Síðustu ár hef ég ferðast um landið með forvarnar- og fræðsluerindi fyrir börn, ungmenni, foreldra, kennara og eldri borgara. Rúmlega 23.000 þátttakendur á 500 fyrirlestrum um allt land. Fræðslan er keyrð áfram af minni eigin hugsjón og oft á tíðum í sjálfboðastarfi.
Frá 2018 til loka árs 2020 starfaði ég við dagskrárgerð, ritstjórn og hönnun hjá N4 og kom þar að gerð um 400 sjónvarpsþátta, ásamt því að taka virkan þátt í stefnumótun á miðlinum. Þar stýrði ég íþróttaumfjöllun stöðvarinnar m.a. með 100 þáttum af Taktíkinni sem fjallaði um íþróttastarf á landsbyggðunum. Tók þar m.a. þátt í að kjósa íþróttamann Akureyrar.
Sumarið 2010 fékk ég mitt fyrsta starf hjá íþróttafélagi, Þór á Akureyri, fyrst sem vallarstarfsmaður og síðan í íþróttaskóla félagsins. Þaðan lá leið mín í Knattspyrnuþjálfun, ég lauk UEFA B þjálfararéttindum og starfaði á tímabilinu 2014-2018 sem þjálfari yngri flokka hjá Knattspyrnufélagi Akureyrar. Ég tók síðan við þjálfun hjá Ungmennafélagi Samherja í Eyjafjarðarsveit sem síðan varð til þess að ég tók við starfi sem umsjónarmaður félagsmiðstöðvarinnar í skólanum í Eyjafjarðarsveit.
Vinnuhópar og önnur störf:
- Ég sit í tengiliðahópi á vegum þjóðaröryggisráðs um rýni á mögulegri miðlun erlendra ríkja eða aðila þeim tengdum á „fölskum fréttum“, áróðri, lygum og undirróðri hér á landi sem miðar að því að grafa undan samfélagslegu trausti og lýðræðislegum gildum.
- Sit í starfshópi menntamálaráðherra um mótun reglna um viðeigandi og örugga farsímanotkun í grunnskólum.
- Nordic MIL Survey - Expert Group - fyrir hönd Íslands. Hópurinn vinnur að sameiginlegri rannsókn á miðlalæsi á Norðurlöndum.
- Samráðshópur um vernd einstaklinga í aðdraganda kosninga.
- Skjánotkun barna – leiðbeiningar Heilsuveru - höfundur
- Kynningarstjóri Sambands ungra Framsóknarmanna.
Annað sem frambjóðandi vill taka fram:
Ég sé mikil tækifæri í því að efla starf UMFÍ. Lýðheilsu- og forvarnarstarf hefur átt hug minn allan síðustu ár. Næstu skref eru að horfa til þátta eins og t.d. ólöglegra veðmálaauglýsinga og markaðssetningar á nikótínvörum til ungra drengja. Hjá ungum stúlkum eru aðrar áskoranir sem kalla á athygli okkar í íslenskum rannsóknum eins og t.d. óraunhæfur samanburður, stafræn kynferðisleg áreitni og auglýsingar um megrunarvörur og leiðir til að létta sig. Með framboði mínu vil ég bjóða fram krafta mína, þekkingu og reynslu til þess að efla markaðs og kynningarstarf UMFÍ ásamt því að setja aukinn kraft í forvarnir og fræðslu.