Fara á efnissvæði
24. júlí 2023

Badminton LED í fyrsta sinn á Unglingalandsmóti

Nýjasta greinin á Íslandi


„Badminton LED er nýjung á Íslandi og verður hún prófuð í fyrsta sinn hér á landi á Unglingalandsmóti UMFÍ, sem fram fer á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Badminton LED er í raun badminton með LED-ljós í korkinum á flugunni. Síðan eru ljósin slökkt og skína þá ljósin í flugunni og þá sjá keppendur hvert andstæðingurinn slær.

„Við byrjuðum með badminton á Króknum árið 2018 og hefur starfið vaxið smám saman á hverju ári. Auk þess er fullorðið fólk farið að spila meira badminton hér en áður, svo já það er töluverður áhugi á badminton á Sauðárkróki,“ segir Freyja Emilsdóttir. Hún mun ásamt Helga Jóhannessyni, manni sínum, kynna badminton LED fyrir þátttakendum Unglingalandsmótsins á Sauðárkróki. 

 

Meistarar í badmintoni

Þau Freyja og Helgi eru mikið íþróttaáhugafólk og stofnendur Badmintondeildar Tindastóls. 

Þau hafa bæði nokkuð ólíka aðkomu að badmintoni. Helgi er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann spilaði og keppti í badminton í vel yfir 20 ár, æfði og keppti fyrir TBR og á árangursríkan feril að baki sem leikmaður, á marga Íslandsmeistaratitla í bæði unglingaflokkum og meistaraflokkum og spilaði fyrir öll yngri landsliðin sem og A-landslið Íslands. Helgi er líka fyrrverandi landsliðsþjálfari bæði yngri landsliða sem og A-landsliðsins og hefur auk þess setið í stjórn og nefndum Badmintonsambandsins. 

Freyja kynntist íþróttinni fyrir alvöru þegar hún kynntist Helga. Freyja hefur nokkrum sinnum farið sem fararstjóri í landsliðsferðir Badmintonsambandsins en hennar helst hlutverk núna er að hvetja dæturnar áfram í sportinu og hlúa að Badmintondeild Tindastóls sem þau hjónin stofnuðu fljótlega eftir að þau fluttu á Krókinn. 

 

Mikið í boði fyrir alla fjölskylduna

Freyja segir góða stemningu fyrir Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki og hvetur sem flesta til að mæta, fjölskyldur með þáttakendur . 

„Bæjarbúar eru tilbúnir í þetta verkefni og við erum viss um að þátttaka verði góð. Allir vilja vilja  taka þátt í mótinu og skapa góðar og skemmtilegar minningar. Við hvetjum öll ungmenni til að taka þátt í sem flestum íþróttum og hafa gaman. Við hvetjum líka fjölskyldur með börn sem ekki hafa náð aldri til að taka þátt í mótinu til að kíkja í heimsókn því það er heilmikið um að vera fyrir yngri börnin líka. Unglingalandsmótið snýst um að skemmta sér í íþróttum með vinum, liðsfélögum og fjölskyldunni, að kynnast nýjum íþróttum og nýju fólki,“ segir Freyja.

Á mótinu er boðið upp á kynningu á fjölda íþróttagreina sem allir sem áhuga hafa og ýmsa afþreyingu og tónlist á hverju hverju kvöldi. Þar á meðal er skemmtiskokk, badminton, blindabolti, BMX Brós, kynning á bogfimi, borðtenni og vinnubúðir í Freestyle Football, fimleikafjör, strandhlaup, hæfileikasvið, sandkastalagerð, sundleikar, listasmiðja, zumba og margt fleira. 

Tónleikar verða á hverju kvöldi og koma þar fram dj Heisi, Danssveit Dósa, Herra Hnetusmjör, Emmsjé Gauti og Valdís og brekkusöngur með þeim Magna, Jóni Arnóri og Baldri og Guðrúnu Árnýju.

Kynning á badmintoni verður frá klukkan 13:00 – 17:00 laugardaginn 5. ágúst.

 

Skráning er í fullum gangi á umfi.is og er hægt að skrá þátttakendur á aldrinum 11-18 ára í allan þann fjölda greina sem í boði er á mótinu til mánudagsins 31. júlí næstkomandi.

 

Þú getur séð alla dagskrá mótsins hér

Allt um Unglingalandsmót UMFÍ og skráning