Fara á efnissvæði
25. ágúst 2025

Besta ákvörðunin að fara í lýðháskóla

Ólöf María Guðmundsdóttir kvaddi fjölskyldu sína í Önundarfirði í byrjun árs og fór í lýðháskóla í Danmörku fram á mitt ár. Þetta var fyrsta skiptið sem hún fór frá fjölskyldunni. Þótt Ólöf María sakni fjölskyldunnar segist hún hafa orðið sjálfstæðari úti og miklu öruggari en áður.
 
„Þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið,“ segir Ólöf María Guðmundsdóttir frá Önundarfirði á Vestfjörðum. Hún er nítján ára áhugamanneskja um handavinnu og var við nám í Menntaskólanum á Ísafirði þegar amma hennar benti henni á að í Danmörku væri lýðháskóli sem býður upp á ýmiss konar nám í handverki. Þetta var Skals Højskolen for Design og Håndarbejde, og fannst henni þarna komið kjörið tækifæri fyrir Ólöfu til að þróa færni sína frekar.

„Ég er mjög náin fjölskyldunni minni og hafði aldrei farið langt frá þeim. Við fórum afi og amma þess vegna í heimsókn í skólann í fyrrasumar. Mér leist rosalega vel á hann og skráði mig í hann,“ segir Ólöf María, sem fór svo utan ásamt móður sinni og bróður skömmu eftir áramótin.

Skólinn hófst 19. janúar síðastliðinn og stóð námið til loka júní. Í skólanum eru aðeins 23 nemendur sem gerir hópinn mjög samheldinn. Frá fyrsta degi var þeim skipt í tvo hópa sem eru saman í tímum út önnina. Kennslan er fjölbreytt og hefur Ólöf þegar lært að vefa, prjóna, sauma, vinna með leður og stunda útsaum. 

Hún segir kennarana í skólanum einstaka; þeir séu hjálpsamir og opnir fyrir hugmyndum nemenda. Ef einhver fær innblástur til að vinna að eigin verkefnum er hann hvattur áfram og öllum veitt aðstoð við framkvæmdina.

Ólöf var eini Íslendingurinn í skólanum en þó eru þar einnig tveir íslenskir kennarar, Björk og Helga.

Tungumálið var áskorun þar sem allt nám fer fram á dönsku, en hún segir að kennararnir séu skilningsríkir og tilbúnir að útskýra betur þegar þörf er á. Henni finnst hún nú orðin sjálfstæðari og öruggari en áður.
 

Þekkt handverksfólk í heimsókn

Daglegt líf í skólanum er vel skipulagt. Alla morgna er samkoma þar sem nemendur syngja saman og hlýða á fyrirlestur um fjölbreytt efni. Á þriðjudögum og fimmtudögum koma gestafyrirlesarar sem eru þekktir fyrir handverk sitt í Danmörku og segja frá reynslu sinni og verkum. Um helgar þurfa nemendur sjálfir að elda matinn, en á virkum dögum sjá starfsmenn skólans um eldhúsið.

Í mars fóru nokkrir nemendur í ferð til Árósa í heimsókn í fatahönnunardeild háskólans þar. Nemendahópurinn fór líka í heimsókn til konu sem býr til körfur úr efni sem hún finnur í garðinum heima hjá sér. Hún kenndi nemendunum að búa til körfu úr trjáberki og veitti innsýn í ferlið sem gagnast henni til að fá hugmyndir og framkvæma þær.
 

Lærdómsrík upplifun

Þrátt fyrir að sakna fjölskyldunnar hefur dvölin í Danmörku verið ómetanleg reynsla.

Ólöf segir að þessi ákvörðun hafi verið ein sú besta sem hún hefur tekið og hvetur aðra til að skoða möguleikann á að fara í lýðháskóla.

„Þetta hefur verið ótrúlega lærdómsrík og skemmtileg upplifun,“ segir hún.
 

Lýðháskólar og UMFÍ

UMFÍ og Højskolernes Hus í Kaupmannahöfn eru með samstarfssamning um verkefni tengd námsdvöl íslenskra ungmenna í dönskum lýðháskólum. Højskolernes Hus heldur utan um alla lýðháskóla í Danmörku og því er námsframboðið fjölbreytt. Umsóknarfrestur er tvisvar sinnum á ári, annars vegar um haustið og hins vegar í kringum áramót. Til þess að uppfylla kröfur um styrk þurfa umsækjendur að skila inn tveimur til þremur verkefnum.

Markmiðið með styrkveitingunni er að gefa ungu fólki tækifæri til að víkka sjóndeildarhring sinn og einnig til að kynnast nýju tungumáli og menningu, auka færni sína og þekkingu á völdu sviði í gegnum óformlegt nám og styrkja leiðtogahæfileika sína um leið.

Ertu á leið í lýðháskóla í Danmörku í haust? Við erum búin að opna fyrir umsóknir um styrki fyrir haustönn.

Opið er fyrir umsóknir til 26. september næstkomandi.

Markmið með styrkveitingunni er að gefa ungu fólki tækifæri til að víkka sjóndeildarhring sinn. Einnig tækifæri til að kynnast nýju tungumáli og menningu, auka færni sína og þekkingu á völdu sviði í gegnum óformlegt nám og styrkja leiðtogatogahæfileika sína um leið.

Umsóknarfrestir eru tvisvar sinnum á ári. Á haustin er opið fyrir umsóknir fyrir haustönn og heilt skólaár. Um áramót er opið fyrir umsóknir fyrir vorönn. 

Þú getur lesið meira í Skinfaxa

Viðtalið birtist í 1. tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ.  

Tímarit UMFÍ hefur komið út frá árinu 1909 og koma út þrjú tölublöð á ári. Blaðið fjallar um ýmsa þætti í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, aðferðir og vinnubrögð, ýmsa viðburði, ráðstefnur og margt fleira sem tengist íþróttastarfi á Íslandi. Í fyrri blöðum eru líka umfjallanir um frístundastyrki sveitarfélaga, markaðsmál, söguritanir og margt fleira.

Þú getur lesið það allt á umfi.is með því að smella á forsíðu blaðsins hér að neðan.