Fara á efnissvæði
28. desember 2022

Bjargar upptökum af Landsmótum UMFÍ

„Þetta er heilmikil vinna og mörg ár hafa farið í verkið,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Marteinn Sigurgeirsson, sem hefur lengi verið viðloðandi vinnu við sögu UMFÍ og íþrótta- starfs á Íslandi.

Sjálfur er hann frá Selfossi, sem er á sambandssvæði HSK, en hefur búið um árabil í Kópavogi, á sambandssvæði UMSK.

Honum er umhugað um varðveislu sögunnar og sýndi m.a. heimildarmynd af sögu mótanna á sögusýningu sem opnuð var í tengslum við aldarafmæli Ungmennafélags Íslands 2007. Ljósmyndir voru teknar af fyrstu mótunum og var ekki byrjað að kvikmynda þau fyrr en á landsmótinu á Hvanneyri árið 1943.

Marteinn hefur hægt og bítandi safnað upptökum af mótunum saman í þeim tilgangi að varðveita þær og gefa landsmönnum möguleika á að njóta minninganna.

 

„Þetta er mikil vinna. Upptökurnar liggja víða og því er gott að hafa afrit af þeim á ein- Frá keppni í hástökki á Landsmótinu á Akureyri 1955. um stað. Ég hef safnað efninu víða. Ég átti til dæmis ekki upptökur af afmælismótinu á Akureyri árið 2009. Það var mjög flott og sólin skein. Upptökur af öllum mótunum voru til hjá RÚV og keypti ég ákveðnar mínútur af þeim. Það má líta svo á að þetta gerist í skrefum. Nú eigum við nokkrar mínútur af hverju móti. En við getum fjölgað þeim, fært myndefnið í aukin gæði og stækkað umfjöllunina. Það tekur meiri tíma og kostar auðvitað sitt,“ segir hann og bætir við að mótahaldið sé nátengt sögu héraða landsins. Sex til átta landsmót hafi verið haldin í hverjum landsfjórðungi. Marteinn hefur þegar gert eina heimildarmynd um sögu landsmótanna á sambandssvæði HSK og kom hún út fyrir nokkrum árum.

„Það væri gaman að klára hringinn með myndefni í fullum gæðum. Það er svolítil vinna, að sjálfsögðu. En það væri gaman,“ segir hann.

 

Þekktir tökumenn

Margir af þekktustu leikstjórum þjóðarinnar hafa fest Landsmót UMFÍ á filmur og hefur Marteinn samið við þá um höfundarrétt á efninu. Leikstjórinn Reynir Oddsson tók upp allt Landsmótið á Laugum árið 1961. Reynir skráði sig á spjöld íslenskrar kvikmyndasögu þegar mynd hans Morðsaga var frumsýnd árið 1977.

Marteinn segir mikið af áhugaverðu myndefni til á spólum, eins og frá Laugum, en þar var synt í ísköldu vatni í tjörn sem hafði verið stífluð.

„Það er margt forvitnilegt til á upptökunum. Á efni sem tekið var upp á landsmótinu á Laugarvatni árið 1965 má sjá upptökur af því þegar hljómsveitin Mánar spilaði í fyrsta sinn opinberlega. Þar er líka heilmikið viðtal við Labba sem tekið var í Glóru,“ heldur Marteinn áfram.

 

Upptökurnar í hnotskurn

Marteinn hefur safnað saman á einn stað öllu því efni sem hann hefur fundið og búið til grófklippt eintak af upptökunum þar sem hægt er að skoða fimm mínútur frá hverju móti til Landsmóts UMFÍ á Selfossi árið 2013. Á upptökunum má m.a. sjá viðtöl við Svein í Kálfskinni, Gísla Halldórsson, Reyni Karlsson, Hafstein Þorvaldsson, Hörð Óskarsson sundkennara og marga fleiri. Upptökurnar eru vistaðar á myndasvæði UMFÍ og er hægt að skoða þær þar.

 

Hægt er að nálgast allar upptökurnar á YouTube og horfa á þær bæði í síma, tölvu og varpa þeim upp á skjá. Þetta er stórskemmtilegt efni og aldrei að vita nema áhorfendur þekki einhverja þátttakendur á upptökunum. 

Viðtalið við Martein er í Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Hægt er að lesa blaðið allt á umfi.is.

Sjá upptökurnar á YouTube. Hægt er að smella á myndina til að sjá hana.