Fara á efnissvæði
12. júní 2017

Ekki missa af skemmtikvöldinu í Hveragerði

Búast má við heljarinnar fjöri á laugarkvöldinu á Landsmóti UMFÍ 50+ laugardaginn 24. júní. Veislustjóri kvöldsins verður Hjörtur Benediktsson og mun hljómsveitin Pass leika fyrir dansi. Ekki er útilokað að fleiri komi fram á skemmtuninni.

Miðinn fyrir hátíðarkvöldverð og á kvöldskemmtunina er 4.900 krónur.

Ertu búin/n að skrá þig til leiks á mótið? Búið er að opna fyrir skráningu og er hægt að skrá sig í fjölda skemmtilegra greina í blómabænum fram að miðnætti 18. júní.

Þetta eru skemmtikraftarnir

Hjörtur Benediktsson hefur lengi verið þekktur fyrir góðar eftirhermur og hefur skemmt víða um Suðurland í gegnum árin. Hann er jafnframt formaður leikfélags Hveragerðis. Leikfélagið hefur slegið í gegn með leikritinu Naktir í náttúrunni en búið er að panta uppsetningu á verkinu í Þjóðleikhúsinu.

Hér má sjá Hjört þegar hann kom fram í skemmtiþættinum Á tali með Hemma Gunn árið 1989.

Hljómsveitina Pass þekkja margir á Suðurlandi og hefur hún skemmt heimafólki og nærsveitungum um árabil. Hún hefur meira að segja gefið út tónlist sína. Hljómsveitin var stofnuð árið 1992. Tíðar mannabreytingar hafa þó einkennt sveitina eins og oft er með langlífar hljómsveitir.

Hljómsveitin hefur m.a. verið húshljómsveit á Hótel Örk í Hveragerði og Hótel Selfossi og gefið út geisladisk með lögum til styrktar körfuknattleiksdeild Hamars í Hveragerði.

Hér má lesa meira um hljómsveitina Pass frá Hveragerði.

Hér má svo hlusta á lagið Jörðin sem ég ann í flutningi hljómsveitarinnar Pass.