Fara á efnissvæði
25. júlí 2017

Eldheitir fljúgandi Danir verða á Egilsstöðum

Danski fimleika- og sýningahópurinn Motus Teeterboard mætir á Unglingalandsmót UMFÍ 2017 á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina í boði íslenska fyrirtækisins Motus. Fimleikahópurinn samanstendur af kraftmiklum strákum á þrítugsaldri sem slógu í gegn í dönsku hæfileikakeppninni Danmark Har Talent á TV2 í fyrra.

Fjórmenningarnir eru þaulreyndir í fimleikum og hafa verið á meðal helsta fimleikafólks í heimi. Þeir sérhæfa sig í því sem upp á íslensku má kalla vegasalt (e. teeterboard). Við æfingar á vegasaltinu stendur manneskja á öðrum endanum en tvær stökkva á hinn endann. Við þetta skýst sá eini upp og getur hann gert fimleika í loftinu. Hann lendir síðan á öxlum samherja síns eða öxlum.

Búast má við heilmiklu fjöri þegar félagarnir í Motus Teeterboard sýna listir sínar á Unglingalandsmóti UMFÍ á Egilsstöðum. Þeir eru ekki aðeins heilmiklir sprelligosar heldur líka ótrúlega færir í loftfimleikum.

Þetta verður einstakur viðburður.

Hér má sjá félagana í Motus Teeterboard sýna listir sínar.