Engilbert: Sóknarfæri sem kalla á breytta hugsun
Engilbert Olgeirsson er án efa einn af reynslumestu starfsmönnum íþróttahreyfingarinnar, en hann hefur verið framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Skarphéðins í 34 ár. Gilli, eins og hann er jafnan kallaður, fékk brennandi áhuga á félagsmálum á unglingsaldri og heldur neistanum enn. Hann þekkir sögu íþróttahreyfingarinnar vel, jafnt í heimahéraði sem á landsvísu, og hefur víða látið til sín taka.
Eftirminnilegur íþróttakennari
Gilli er fyrst spurður hver hafi verið hans fyrstu kynni af ungmennafélagshreyfingunni.
„Ég bjó og bý reyndar enn í Holtunum í Rangárvallasýslu en þar var talsvert ungmennafélagsstarf þegar ég var að alast upp. Þar var íþróttakennari Már Sigurðsson sem var mikill leiðtogi okkar. Hann var líka skólabílstjóri og síðar hótelhaldari á Geysi. Már var mjög drífandi í íþróttastarfinu og mikil fyrirmynd. Hann var mjög eftirminnilegur maður, keyrði okkur á mót og fleira. Á þessum tíma keppti ég í körfubolta og við kölluðum okkur ÍMÁ, en það var samsett lið félaga úr Umf. Ingólfi, Umf. Merkihvoli og Umf. Ásahrepps. Við kepptum oftast undir nafni Ingólfs eða ÍMÁ og urðum meðal annars HSK-meistarar unglinga árið 1981. Þessi félög sameinuðust svo rúmum áratug síðar í íþróttastarfinu undir heiti Íþróttafélagsins Garps. Ég var einn af þeim sem tóku þátt í stofnun félagsins sem má segja að hafi orðið til út frá samstarfi gömlu hreppanna í skólamálum. Það þótti eðlilegra að krakkarnir kepptu undir nafni sama íþróttafélags þó svo að gömlu ungmennafélögin héldu sínu starfi áfram,“ segir Gilli.
Í bikarliði HSK í átta ár
Í kringum 1980 var Gilli farinn að keppa í íþróttum og tengdist þannig íþróttastarfinu sem slíku.
„Ég á margar góðar minningar úr gamla samkomuhúsinu á Laugalandi bæði úr ungmennafélagsstarfi og af skemmtanahaldi og ekki síður frá keppnum í frjálsum íþróttum, körfubolta og glímu. Ég keppti í glímu á mótum en var ekkert sérstaklega góður í greininni, náði þó tvisvar þriðja sæti í keppni um Skarphéðinsskjöldinn. Um árabil æfði ég og keppti í körfubolta með félögum mínum í minni heimasveit, á Laugarvatni og í Borgarfirðinum. Ég var líka í frjálsum og náði bestum árangri í þeirri grein, var meðal annars í bikarliði HSK í átta ár, vann Íslandsmeistaratitil í boðhlaupi 1989 og varð bikarmeistari með HSK-liðinu 1990.“
Dróst inn í félagsmálin
Þegar Gilli er spurður út í félagsmálin og hvenær hann hafi farið að láta til sín taka á þeim vettvangi nefnir hann menntaskólaárin á Laugarvatni, en þar hóf hann nám 1982.
„Ég dróst inn í félagsmálin á Laugarvatni og var um tíma annar formanna íþróttanefndar nemendafélagsins Mímis, en formenn íþróttanefndarinnar voru jafnframt formenn Íþróttafélagsins Mímis sem var eitt aðildarfélaga HSK og er enn,“ segir hann.
„Ég var beðinn um að taka sæti í glímunefnd HSK árið 1984 og átti sæti í þeirri nefnd til 1988. Einnig tók ég við formennsku í körfuknattleiksnefnd HSK árið 1985 og var formaður þar í þrjú ár. Þá datt ég inn í að vera í skemmtinefnd Umf. Ingólfs á þessum árum og árið 1986 var ég kosinn formaður félagsins. Því embætti gegndi ég í eitt ár.“
Félagsmálin urðu æ stærri hluti af frístundum Gilla á menntaskólaárunum frá 1982 til 1986 og þegar Gilli var í Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni veturna 1986 til 1988.
Nýr heimur á fyrsta HSK-þinginu
Gilli fór á sitt fyrsta HSK-þing fyrir hönd Umf. Ingólfs árið 1984. Segja má að þar hafi hann stigið inn í nýjan heim.
„Það var mjög eftirminnilegt að koma inn á samkomu eins og héraðsþing HSK. Maður hafði verið á fámennum fundum í Holtunum, en þarna var ég kominn á fjölmennt tveggja daga þing. Menn gistu jafnvel á staðnum á milli þingdaga,“ rifjar hann upp.
Miklar kempur úr íþróttasögu Suðurlands voru á þessu fyrsta þingi Gilla, einstaklingar sem síðan urðu fyrirmyndir hans.
„Þarna var Jóhannes Sigmundsson í Syðra-Langholti, fyrrverandi formaður HSK, og Hafsteinn Þorvaldsson, fyrrverandi formaður UMFÍ. Hafsteinn hélt miklar eldræður á þessum þingum. Þarna var líka Guðmundur Kr. Jónsson, þáverandi formaður HSK, sem var mjög öflugur leiðtogi og brýndi menn áfram.
„Á þessum árum þegar ég var kominn yfir tvítugt var ég þannig séð búinn að kynnast þessu starfi allvel,“ segir Gilli.
Íþróttastarf í Borgarfirði
Gilli útskrifaðist úr Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni vorið 1988. Þá um sumarið fékk hann íþróttakennarastöðu á Varmalandi í Borgarfirði þar sem hann kynntist góðu fólki. Fyrir utan það að fara að kenna á stað sem hann hafði aldrei komið á áður datt hann inn í annan heim í Mýrarsýslunni.
„Maður datt þarna inn í ákveðnar hefðir. Það var eiginlega ætlast til þess að íþróttakennarinn þjálfaði alla krakkana í ungmennafélaginu. Ég hafði nægan tíma þá, einn og ólofaður, og var í þessu nánast flest kvöld. Þetta var mikil vinna og langir dagar en mjög gaman. Þarna kynntist ég í fyrsta skipti íþróttakeppni á milli skólanna, sem var heilmikil á þessum tíma og held ég einstök á landsvísu. Þarna voru massívar keppnir og keppt í ýmsum greinum eins og sundi, boltagreinum o.fl. Ég tengdist íþróttastarfinu, sem var öflugt þarna, spilaði körfubolta bæði með Skallagrími og Umf. Stafholtstungna og komst á endanum ágætlega inn í samfélagið þarna fyrir vestan.“
Fyrsti dagur á skrifstofu HSK
Þegar Gilli hafði unnið í þrjú ár í Borgarfirðinum rakst hann á auglýsingu þar sem leitað var eftir nýjum framkvæmdastjóra HSK. Hann ákvað að sækja um. Fimm sóttu um stöðuna og þegar upp var staðið var Gilli ráðinn vorið 1991. Það má því segja að Gilli hafi snúið heim úr framandleikanum í Borgarfirði á kunnuglegri slóðir ekki svo langt frá æskustöðvunum. Formaður HSK var á þessum tíma Jón Jónsson, félagi Gilla úr Umf. Ingólfi.
„Ég byrjaði fyrsta daginn minn á skrifstofu HSK 27. maí 1991, þannig að í vor var ég búinn að vera hjá HSK í 34 ár. Á þeim tíma óraði mann auðvitað ekki fyrir að þetta yrði raunin,“ segir Gilli og bætir við. „Ég kom inn við nokkuð sérstakar aðstæður. Forveri minn í starfinu hafði lítið verið á skrifstofunni og Engilbert í göngu HSK-liðsins við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ í Þorlákshöfn 2008. Ég sinnti þessu í raun ekki mikið. Ég var ráðinn í fullt starf og mín biðu því ýmis verkefni, þar á meðal frágangur þinggerðar og ýmislegt fleira sem tengdist héraðsþinginu. Þetta var svolítið óvænt en ég komst svo inn í málin með tíð og tíma.“
Ekki hefðbundinn vinnutími
Það liggur auðvitað beinast við að spyrja Gilla hvernig starfið hjá HSK hafi breyst frá því hann gekk inn á skrifstofu sambandsins í fyrsta sinn og þar til nú.
„Þau sem hafa unnið þessi störf vita að vinnutíminn er ekki alltaf hefðbundinn frá níu til fimm. Það þarf að miða það út frá forsendum sjálfboðaliðanna sem vinna í hreyfingunni. Stjórnarfundirnir í HSK og undirbúningur fyrir þá var aðeins öðruvísi á þessum árum en hann er í dag. Hér áður fyrr fór töluverður tími í að tína saman fundargögnin, sem höfðu borist í mánuðinum, ljósrita þau og senda áfram í pósti. Þetta var oft þykkur bunki sem fólk fékk með póstinum. Á þessum árum byrjuðu stjórnarfundirnir yfirleitt um hálf níu á kvöldin og miðuðust svolítið við þegar verkum var lokið í fjósinu. Af þessum sökum lauk fundum sjaldan fyrir miðnætti.“
Öllu skellt upp á vegg
Á fyrstu árum Gilla hjá HSK var fólk ekki í eins miklum samskiptum og er í dag enda farsímar og net ekki komið til sögunnar. En málin sem þurfti að ræða voru ekkert færri þá en nú. Gilli segir að í dag sé þetta mikið breytt.
„Ég ljósrita nánast ekki neitt orðið, ekki einu sinni fyrir héraðsþingið. Núna er allt á netinu og bara skellt upp á vegg. Við höldum okkur reyndar enn við það að gefa út ársskýrslu á pappír og drögum línuna þar.“
Hann bendir einnig á að þótt fundirnir séu orðnir mikið til rafrænir í dag þá komi ekkert í staðinn fyrir fundi sem fólk mætir á og ræði málin augliti til auglits.
„Fólk gleymir því stundum að gleðin þarf að vera í fyrsta sæti í öllum störfum. Stjórnarfundirnir eru styttri í dag, kannski einn til tveir tímar. Mörg mál eru orðin afgreidd í tölvupóstum eða með öðrum rafrænum samskiptum og í raun bara staðfest á fundunum,“ segir hann.
Kíkt í kaffi og spjall
Á fyrstu árum Gilla í starfi framkvæmdastjóra HSK var mikið hringt og margir sem komu á skrifstofuna, oft í tengslum við mótahald. Þá voru hvorki til heimasíður og internet fyrir almenning né tölvupóstar. Samt gekk þetta einhvern veginn.
„Maður reyndi að sinna þessu með kaffi og spjalli þó að tíminn hafi stundum verið takmarkaður. Núna er nánast allt orðið á netinu. Unga fólkið áttar sig ekki á þessu. Það er orðið vant því að vera með símann í höndunum.“
Mörg verkefni hafa breyst
Hjá HSK er löng hefð fyrir því hjá að gefa út fréttabréf. Lengst af var það sett upp á skrifstofunni í litlum Makka, ljósritað og sent út. Gilli segir óratíma hafa farið í að safna saman efni í fréttabréfið og ljósrita það. Merkja þurfti hvert fréttabréf og senda það í pósti. Sama gilti um annað efni á vegum HSK.
„Aðdragandi héraðsþings var með sama hætti, fundarboð og fundargögn sem þurfti að senda út. Nú er þetta allt miklu auðveldara, enda sent með rafrænum hætti. Verkefnin hafa að því leyti breyst og sum orðið auðveldari.“
Undirliggjandi óánægja
En hvaða mál standa helst upp úr eftir allan þann tíma sem Gilli hefur starfað fyrir HSK? Gilli nefnir þar m.a. innanbúðarmál.
„Fljótlega eftir að ég kom til starfa áttaði ég mig á að talsverð undirliggjandi óánægja var með héraðssambandið hjá nokkrum félögum. Á fyrstu áratugum sambandsins voru félögin mikið til einsleit, ungmennafélög allt saman með svipaða starfsemi. Svo fóru að detta inn fleiri íþróttagreinar. Golfklúbbarnir komu fyrstir og síðan komu sérgreinafélög eins og íþróttadeildir hestamannafélaga. Fyrst máttu hestamannafélögin aðeins vera með íþróttadeildir, sem fengu aðild að sambandinu. Síðar var því breytt þannig að hestamannafélögin gengu í hreyfinguna. Fleiri félög bættust við; knattspyrnufélög, félög með karate, júdó og fleiri greinar. Strúktúr sambandsins varð eðlilega að breytast. En menn voru samt ekki búnir að breyta áherslum neitt að ráði á þessum tíma,“ segir Gilli.
HSK greiddi kostnaðinn Á þeim tíma er Gilli kom til starfa hjá HSK gat hver sem er keppt undir merkjum héraðssambandsins sem greiddi þá þátttökugjöldin.
„Þetta fyrirkomulag var líka hluti af óánægjunni. Það er alveg óhætt að segja að ákveðin mismunun hafi verið í gangi. Í golfi og knattspyrnu keppti fólk undir nafni sinna félaga en ekki HSK og stóð sjálft straum af kostnaðinum. Á þessum árum voru menn að gefast upp á að senda sameiginleg lið undir merkjum HSK í boltagreinum á Íslandsmót. Það var dálítið þungt að vera með nefndir innan HSK sem höfðu ekki sjálfstæðan fjárhag. Í nokkrum greinum var keppt undir nafni HSK og reikningurinn sendur á skrifstofuna. Þetta voru talsverðar fjárhæðir og menn í öðrum félögum sem kepptu undir eigin nafni voru ekki að ná í þennan sjóð,“ segir Gilli en bætir við að um þessi mál hafi verið skiptar skoðanir. Þau hafi verið mikið rædd innan sambandsins.
„Á héraðsþingi HSK árið 1996 var samþykkt að auka lottóhlut til félaganna og minnka á móti hlutdeild til HSK. Á sama þingi var líka samþykkt að hætta að greiða kostnað vegna keppnisliða í íþróttamótum, en eftir sem áður gætu félögin sameinast um lið undir merkjum HSK. Þau yrðu sjálf að bera fjárhagslega ábyrgð á því. Á héraðsþingi HSK tveimur árum síðar var bætt við ákvæði í lög HSK um sérráð sambandsins. Þar með var hægt að stofna sérráð í viðkomandi grein með sjálfstæðan fjárhag. Upp úr því urðu til tvö sérráð innan HSK, frjálsíþróttaráð og glímuráð. Þau eru enn starfandi og þar er keppt undir merkjum HSK. Fyrir nokkrum árum var svo samþykkt að sérráðin fengu lottógreiðslur til að standa að hluta undir rekstri sínum. Starfið sjálft fer samt sem áður fram í félögunum og þjálfunin fer fram þar.“
Megum ekki missa af vagninum
Þegar Gilli er spurður hvernig hafi gengið að vinna með aðildarfélögunum segist hann hafa reynt að vinna út frá þeirri hugmyndafræði að gera ekki upp á milli greina, hvað þá félaga.
„Í mínum huga eru allir jafnir þegar þeir eru komnir inn fyrir þröskuldinn,“ segir Gilli. Hann bætir við að innan HSK séu mjög fjölbreyttar greinar og að nýjar séu teknar inn út frá ólympíuskilgreiningum ÍSÍ. Staðfesta þarf lög viðkomandi félags áður en það fær aðild.
„Kannski eru menn í einhverjum tilfellum full íhaldssamir í þessu. Sem dæmi myndaði UMFÍ sérráð um starfsíþróttir fyrir nokkrum árum sem var nánast ígildi sérsambands. Það lagðist síðan af eftir að gömlu landsmótin hættu. Ég velti því alveg fyrir mér hvort við ættum að vera duglegri að taka inn nýjar greinar sem eru ekkert endilega staðfestar alls staðar. Þetta er spurning um það hvort við ætlum að stökkva á vagninn eða láta hann fara fram hjá okkur. Mikið íþróttastarf fer orðið fram utan hreyfingarinnar eins og crossfit og ýmsir íþróttaviðburðir og keppnir,“ segir Gilli.
Tenging við svæðin
Spurður um samstöðuna innan HSK segir hann það hafa verið mjög jákvætt að standa að sameiginlegu mótahaldi innan héraðs. Héraðsmótin skipti miklu máli. Þau þurfi að halda velli, alla vega í einhverjum greinum.
„Við höfum líka haldið Unglingalandsmót UMFÍ og Landsmót UMFÍ 50+, auk gömlu landsmótanna. Mótin hafa verið ákveðin tenging HSK við svæðin og sveitarfélögin, ekki ósvipað og hjá UMFÍ,“ segir hann og bendir á að frá því hann byrjaði hafi HSK haldið mörg mót með UMFÍ og sveitarfélögunum.
„Síðan ég byrjaði hefur sambandið haldið UMFÍ-mót í fjórum sveitarfélögum; á Laugarvatni, í Árborg, Þorlákshöfn og Hveragerði. Rangárþing ytra og Umf. Hekla hafa auk þess áhuga á að halda Landsmót UMFÍ 50+. Við höfum alltaf verið í góðu samstarfi við sveitarfélögin á sambandssvæðinu og fengið að nýta þeirra aðstöðu til mótahalds og þinghalds,“ segir hann.
Þurfum stóran hóp sjálfboðaliða
En hvaða þýðingu hefur það fyrir samband eins og HSK að halda mót eins og þau sem UMFÍ hefur upp á að bjóða?
Gilli bendir á að oftast sé einhver fjárhagslegur ávinningur sem deilt er út til aðildarfélaganna. Erfiðara er engu að síður að halda stór mót en minni.
„Ef mótin eru stór þurfum við fjölmennan hóp til að geta haldið þau. Margt mjög öflugt fólk hefur komið að þessum mótum með okkur,“ bætir hann við.
Nýtt fólk til starfa
Gilli segir það geta verið jákvætt þegar kalla þarf á aukafólk til starfa til að sinna verkum.
Þá verði til nýr snertiflötur við börn, unglinga og foreldrana.
„Ég hef oft hitt fólk sem hefur aldrei verið í ungmennafélagsstarfi, hvað þá á mótunum. Það drekkur í sig ungmennafélagsandann þar sem allir eru með. Þarna fáum við fólk til starfa bæði í nefndunum okkar og ekki síður inn í félögin. Um tíma voru Laugvetningar mjög áberandi á þessum mótum. Í dag koma langflestir á Unglingalandsmótin frá Selfossi. Í kringum Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi árið 2012 varð til stór kjarni krakka sem tengdist. Þau héldu áfram að sækja mótin. Mótið var aftur haldið hér tíu árum síðar og aftur myndaðist kjarni. Mótin eru skemmtileg viðbót því þar prófa krakkar nýjar greinar og verða jafnvel afreksfólk síðar á ævinni.“
Minnir á mótin í gamla daga
„Ákveðinn kjarni frá okkur mætir alltaf á Landsmót UMFÍ 50+. Á mótið fyrir norðan í ár komu rúmlega 30 keppendur frá HSK. Fyrir þá er þátttakan félagsleg, hvort sem í því felst að hitta gamla félaga og spila bridds inn í loftlausu herbergi eða fara út á völl og keppa í frjálsum á grasi, við misgóðar aðstæður. Þau mót minna svolítið á það þegar við fórum í Gunnarshólma hér á árum áður og kepptum á grasi. Að því leyti felst svolítil nostalgía í mótinu.“
Áhrif á uppbyggingu íþróttamannvirkja
„Þegar ég lít til baka, þessi rúmlega þrjátíu ár sem ég er búinn að vera hérna, er greinilegt að þetta mótahald UMFÍ hefur haft gríðarleg áhrif á uppbyggingu íþróttamannvirkja. Það má sjá um allt land og einnig á okkar svæði. Við fengum sem dæmi tartanvelli á Laugarvatni, í Vík í Mýrdal, Þorlákshöfn og á Selfossi. Ríkið veitti á þessum tíma fjármagni í þessar framkvæmdir, sem var hvetjandi fyrir sveitarfélögin. Starfið á þessum stöðum hefur auðvitað gengið í bylgjum en það er á uppleið núna, m.a. á Laugarvatni og í Þorlákshöfn. Svo hefur í seinni tíð komið ýmis önnur aðstaða eins og strandblakvellir, útihandboltavellir, frisbígolfvellir og margt fleira. Allt hefur þetta áhrif, bæði fyrir félögin og íbúana.“
Allir í hreyfingunni í UMFÍ
Talið berst að starfinu hjá HSK í dag og er Gilli spurður hverjar séu helstu áskoranirnar.
„Það eru ákveðnar breytingar í gangi núna í hreyfingunni, sem meðal annars koma fram í því að síðasta íþróttabandalagið, Íþróttabandalag Vestmannaeyja, kom inn í UMFÍ á þessu ári. Þar með eru allir í hreyfingunni komnir í UMFÍ. Í því felast heilmikil sóknarfæri og það kallar kannski á breytta hugsun. Það hafa líka verið tekin jákvæð skref í samstarfi þessara heildarsamtaka okkar á undanförnum árum.“ Gilli segir að héraðssamböndin og íþróttabandalögin hafi setið eftir hvað varðar sameiningu íþróttahéraða.
„Ef maður lítur til baka var ákveðin framsýni í því árið 1910 að hafa félögin í Rangárvallasýslu og Árnessýslu í einu sambandi. Í flestum héruðum á landinu var það ekki þannig. kannski helst á Austurlandi. Ég er nokkuð viss um að það hefði ekki orðið sami dugur hér á Suðurlandi ef samböndin hefðu orðið tvö í staðinn fyrir eitt.“
Breytingar á lottóreglugerð
Á síðustu þingum UMFÍ og ÍSÍ voru samþykktar breytingar á lottóreglugerðinni.
Gilli segir að áður hafi hún ekki beinlínis verið hvetjandi til sameiningar. Nú sé lottóið greitt út frá íbúafjölda og sama upphæð kemur inn á hvert svæði burtséð frá fjölda félaga á svæðinu. Innganga íþróttabandalaga í UMFÍ breyti líka upphæðunum sem fara til héraðssambandanna.
„Hjá okkur í HSK var skerðing um 20% en það er bara eðlilegt þegar þú bætir við nýjum aðilum. Þannig að þessar samþykktir eiga eftir að hafa mikil áhrif á sambandsaðilana. Það má líka velta því fyrir sér hvort ekki sé kominn tími á að stokka þetta frekar upp. Kannski gerist það á landsvísu með stofnun nýju svæðisstöðvanna sem hófu starfsemi sína fyrir rétt rúmu ári síðan. Það kallar á nýja hugsun, held ég. Ég sé alla vega einhver teikn á lofti um að á landsvísu gæti það breytt þessu eitthvað. Starf þeirra er auðvitað enn í mótun og við vitum ekki hvað verður, en þetta verður að tvinna saman með héruðunum.“
Svæðisskrifstofan á Suðurlandi er í Selinu á Selfossi við hliðina á skrifstofu HSK og segir Gilli heilmikinn styrk felast í því fyrir báða aðila.
„Hvað fjárhaginn varðar verða menn alltaf að sníða sér stakk eftir vexti. Ég sé alveg fyrir mér að það væri hægt að setja einhver verkefni sem ég hef verið að vinna yfir á svæðisskrifstofuna,“ segir hann.
Breytt starfshlutfall
Gilli hefur undanfarið unnið að því að minnka umfang starfsins og viðveru á skrifstofu og er því búinn að vera í 80% starfi frá því í vor.
„Mér gengur reyndar frekar hægt að ná því niður. En það er annað mál. Það eru alltaf einhver verkefni á borðinu hjá manni, gömul og ný. Stofnun svæðisskrifstofanna var ágætis skref að mörgu leyti en þetta var kannski svolítið kassalaga í byrjun. Það hefði alveg mátt taka meira mið af hverju svæði fyrir sig. Sums staðar hafa menn verið í hálfu starfi eða hlutastarfi, jafnvel bara hluta úr ári. Slíkir starfsmenn staldra sjaldnast lengi við. Við þurfum að búa þannig um hnútana, hvernig sem verður, að í þessu geti verið starfsmenn sem tolla í starfi. Þá verður það líka að vera með þeim hætti að vinnutíminn sé þannig að menn séu ekki étnir upp til agna. Það er ekki hægt að ætlast til að starfsmaðurinn geri allt, þjálfi, þvoi búninga, stýri þessu öllu, safni peningum og geri allt,“ segir Gilli.
Þarf að vera ástríða og áhugamál
Að lokum var Gilli spurður hver ástæðan sé fyrir því að hann hafi enst í starfinu öll þessi ár.
„Það endist enginn í þessu starfi nema hafa áhuga á því. Það getur reyndar verið svolítið erfitt að halda utan um tímana ef maður er alltaf í Excel-skjalinu. Þetta starf hefur auðvitað kallað á mikla fjarveru frá heimilinu, en ég hef með árunum reynt að draga úr öðru félagsmálastússi. Ég var um tíma í allt of mörgu,” segir Gilli og nefnir að hann hafi alltaf verið að fást við ný verkefni hjá HSK, þar á meðal mótun svæðisskrifstofanna síðustu misseri.
„Við fórum um daginn saman til Vestmannaeyja frá HSK og USVS og heimsóttum félaga okkar í ÍBV. Það er kannski upphafið að einhverju meira. Hvað vitum við? Við ætlum alla vega saman í bíl á sambandsþing UMFÍ,“ segir Gilli.
Félagsmálamaður í grunninn
„Það má alveg segja að ég sé félagsmálamaður í grunninn og vinnan hjá HSK hefur því verið áhugamál hjá mér lengi. Ég hef setið ansi marga fundi og þing tekið þátt í þeim. Ég get aldrei þagað. Hluti af þessu er að hafa skoðanir og taka þátt í lýðræðislegri umræðu og að hitta fólk alls staðar úr hreyfingunni. Á meðan ég hef enn þá gaman af því að mæta í vinnuna og ástríðu fyrir þessu held ég áfram,“ segir Gilli að lokum.
Allt í Skinfaxa
Viðtalið við Engilbert er í 2. tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Í viðtalinu nefnir Engilbert fundi íþróttahéraða á Suðurlandi, þ.e. HSK, ÍBV og USVS. Skömmu eftir að blaðið kom út kom hann ásamt öllum þingfulltrúum frá íþróttahéruðum á Suðurlandi í einni rútu á 54. Sambandsþing UMFÍ í Stykkishólmi. Þetta var fyrsta sameiginlega ferð forsvarsfólks íþróttahéraðanna. Hér að neðan má sjá mynd af hópnum þegar hann kom með rútunni til Stykkishólms.
Á einni af myndunum hér að neðan má sjá boðhlaupssveit HSK á Landsmóti UMFÍ í Mosfellsbæ árið 1990. Frá vinstri: Engilbert, Jón Birgir Guðmundsson, Ólafur Guðmundsson og Jón Arnar Magnússon.
Þú getur líka smellt á blaðið hér að neðan og lesið Skinfaxa í heild sinni á umfi.is.
En hafðu í huga! Nýtt tölublað Skinfaxa er tilbúið, það er í prentsmiðju og fer í dreifingu fyrir jól.