Fullt á ráðstefnu um afreksmál

Mikil ánægja var með ráðstefnu þar sem rætt var um afreksmál barna og ungmenna. Öðru fremur vilja þátttakendur á ráðstefnunni hittast oftar og fræðast meira fremur en að vera hver í sínu horni. Uppselt var á ráðstefnuna og horfðu margir á í streymi.
„Kostnaður við afreksíþróttaiðkun barna hefur hækkað mikið, það hefur neikvæð fjárhagsleg áhrif á fjölskyldur og getur leitt til vanlíðunar og röskunar hjá ungum iðkendum,“ segir sálfræðingurinn Katie Castle. Hún var með erindi á ráðstefnunni Meira eða minna afreks. Þar var fjallað um snemmtæka afreksvæðingu í íþróttum barna og ungmenna og áhrif hennar á ungt fólk.
Að ráðstefnunni stóðu Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) ásamt Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ), Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) og Háskólanum í Reykjavík. Ráðstefnan var hluti af RIG 2025.
Katie Castle er fyrrverandi keppnisfimleikakona og þjálfari/danshöfundur á háu stigi með 3. stig í National Coaching Certification Program. Hún sérhæfir sig í vinnu með ungu íþróttafólki, fjölskyldum þeirra og þjálfurum um málefni eins og frammistöðukvíða, ótta og andlegar hindranir, fullkomnunaráráttu og lágt sjálfstraust. Í erindi sínu fjallaði hún um ýmsa þætti í afreksstarfi og atvinnumennsku barna og ungmenna sem geta haft neikvæð áhrif.
Castle rifjaði meðal annars upp að móðir sín hafi saumað fyrsta fimleikabúninginn og kostnaður verið bærilegur. Nú hafi umhverfið breyst mikið, búningar orðnir mun dýrari og sérhæfðari og velta í íþróttum yngri iðkenda í samræmi við það margfaldast.
Fleiri áhugaverð erindi voru flutt á ráðstefnunni. Þar á meðal voru þau Daði Rafnsson, fagstjóri á afrekssviðis Menntaskólans í Kópavogi og doktorsnemi við Háskólann í Reykjavík; Christian Thue Björndal, rannsakandi, kennari og handboltaþjálfandi og dósent við norska íþróttavísindaskólann, og dr. Carsten Hvid Larsen, yfirsálfræðingur hjá danska knattspyrnusambandinu. Auk þess hélt Perla Ruth Albertsdóttir, landsliðskona í handbolta, afar skemmtilegt og fræðandi erindi um fjölbreytta íþróttaiðkun sína í barnæsku til dagsins í dag.
Eftir erindin var pallborð sem í sátu: Hafrún Kristjánsdóttir frá Háskólanum í Reykjavík, Sólveig Jónsdóttir, Framkvæmdastjóri Fimleikasambands Íslands, Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ, og Jörundur Áki Sveinsson, sviðsstjóri knattspyrnusviðs Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ). Miklar og gagnlegar umræður spunnust um afreksstarf barna og ungmenna.









