Fara á efnissvæði
18. apríl 2024

Geir sæmdur Gullmerki UMFÍ

Geir Kristinn Aðalsteinsson var sæmdur Gullmerki UMFÍ á 66. ársþingi Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) sem fram fór 16. apríl. Geir hefur setið í tíu ár sem formaður bandalagsins. Hann var hlaðinn lofi á þinginu og var sæmdur bæði Gullmerki ÍBA og ÍSÍ. Á þinginu steig Geir upp úr formannsstólnum og tók við sæti hans Jóna Jónsdóttir, sem hafði verið í varastjórn ÍBA.

Jóna er fyrsta konan sem kosin er formaður ÍBA. Birna Baldursdóttir, varaformaður ÍBA, steig reyndar inn sem formaður til skamms tíma þegar Geir fór tímabundið frá þar hann tók að sér þjálfun meistaraflokks Þórs í handbolta.

Nokkrar aðrar breytingar urðu á stjórn ÍBA á þinginu. Á sama tíma og Geir gaf ekki kost á sér áfram gekk Ómar Kristinsson úr stjórninni. Hann hafði verið meðstjórnandi í fjögur ár og hlaut hann silfurmerki bandalagsins. Nýir inn í stjórn eru þeir Alfreð Birgisson og Ásgeir Örn Blöndal.

Nokkrar fleiri heiðranir voru á þinginu. Þeir Guðmundur Bjarnar Guðmundsson og Sveinn Torfi Pálsson, sem hafa verið skoðunarmenn reikninga frá árinu 2008, voru sæmdir silfurmerki ÍBA. Þingforsetinn Ingvar Gíslason, sem stýrði þinginu vel, hlaut gullmerki ÍBA. Ingvar hefur setið í nefndum á vegum ÍBA, stýrt íþróttahátíð í Hofi við krýningu íþróttafólks ársins og verið þingforseti í mörg ár. Að lokum var Skapti Hallgrímsson sæmdur gullmerki ÍBA fyrir framlag hans til íþrótta á Akureyri. 

Hulda Mýrdal, stofnandi og eigandi verslunarinnar Heimavöllurinn, var gestur þingsins og hélt fyrirlestur um stelpur og fótbolta. Lagði hún áherslu á fjölbreyttar fyrirmyndir.

Aðrir gestir þingsins voru þau Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, og Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, auk Viðars Sigurjónssonar frá ÍSÍ. Auður afhenti Geir gullmerkið og hélt erindi um tækifærin í íþróttahreyfingunni, kosti samstarfs og samvinnu og fyrirhugaða endurskoðun á íþróttalögum. 
Rétt tæplega 30 þingfulltrúar frá 11 aðildarfélögum af 20 mættu á þingið. Það jafngildir rétt rúmlega 30% mætingu sem er í dræmara lagi. 

 

Meira af ársþingi ÍBA