Fara á efnissvæði
25. júlí 2025

Gott að hafa í huga fyrir Unglingalandsmót

Við minnum á að síðasti dagurinn til að skrá sig í greinar sem þú vilt taka þátt í er sunnudaginn 27. júlí næstkomandi. Það styttist hratt í daginn og því um að gera að skrá sig í greinar. 

Eftir sunnudaginn verður mögulega hægt að bæta við í einhverjar greinar, en það verður háð því hversu mörg pláss eru í boði. Þess vegna verður ekki hægt að ganga að því vísu. 

Við hlökkum til að sjá þig á mótinu! Nú er um að gera og æfa stökkin, brosa og undirbúa sig vel fyrir skemmtilegt mót.

Þátttakendur geta skráð sig sjálfir í greinar, fjölgað greinum og afskráð sig í öðrum. 

Unglingalandsmótið er tilvalinn vettvangur til að prófa nýjar greinar. Ef þú ert ekki með liðsfélaga þá er hægt að skrá sig „án liðs“ og við hjá UMFÍ setjum saman lið handa ykkur.

En hvernig breyta þátttakendur skráningu sinni?

Hér eru leiðbeiningar 

 

Margir opnir viðburðir í boði

Fjöldi opinna greina og viðburða verður í boði á Unglingalandsmótinu til viðbótar við keppni í meira en 20 íþróttagreinum.

Á föstudeginum verður fótboltafjör fyrir 9-10 ára og leikjagarður.

Eftir setningu mótsins á föstudagskvöld geta mótsgestir farið í badminton LED í íþróttahúsinu, prófað fimleika, farið í sundlaugarpartý, körfuboltapartý, blindrabolta, farið í ringó með allri fjölskyldunni og prófað fjölda greina.

Á laugardeginum og á sunnudag heldur fjörið áfram með sundleikum, leikjagarði, bæjargöngu og mörgu fleiru.

Þú getur séð allt í boði í dagskrá mótsins.

 

Dagskrá mótsins

 

Breytingar á greinum á milli ára

Við vekjum athygli á því að fjöldi þátttakenda í nokkrum greinum hefur breyst á milli ára. Grasblak er ein þeirra greina en þar hefur orðið veruleg fjölgun bæði á þeim sem geta verið innan vallar og í liðum. Þar eru nú fjórir í hverju liði inni á vellinum í stað tveggja áður. 

Við biðjum ykkur um að kynna ykkur fjölda liðsfélaga í ykkar greinum.

Að sama skapi hefur verið bætt við nokkrum greinum í frjálsum íþróttum og keppnisflokkum í frisbígolfi.

Endilega skoðið allt úrvalið sem í boði er á Unglingalandsmótinu.

 

Tjaldsvæði mótsgesta

Tjaldsvæði fyrir mótsgesti opnar eftir hádegi á fimmtudag. Ef þú og þínir vilja koma degi fyrr er hægt að kaupa sig inn á svæðið hjá rekstraraðilum tjaldsvæðisins. Bílum á að leggja utan við tjaldsvæði meðan á mótinu stendur.

Með miða á mótið fylgir aðgangur að keppnisgreinum fyrir einn þátttakanda á aldrinum 11 - 18 ára, aðgangur að tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna, alla afþreyingu, tónleika, í sund og fjör fyrir litla og stóra fætur, ömmur, afa og frænkur sem ekki eru á keppnisaldri.

Aðeins þarf að greiða sérstaklega fyrir rafmagn og er það gert í gegnum skráningarkerfi mótsins. Rafmagn kostar 5.000 krónur nú. Frá og með 28. júlí hækkar það í 7.500 krónur.

Við hvetjum fólk til að ganga frá greiðslu fyrir aðgang að rafmagni sem fyrst.

Því miður er ekki mögulegt að skipta tjaldsvæði Unglingalandsmóts UMFÍ eftir sambandsaðilum. Tjaldsvæðið er engu að síður stórt og ætti að rúma alla.

 

Tónlist og fjölskyldufjör

Eftir að hafa stundað íþróttir allan daginn er frábært tækifæri að taka fram dansskóna og skemmta sér á kvöldin með gömlum og nýjum vinum.

Allir tónleikar helgarinnar fara fram í Bragganum, sem er við tjaldsvæði mótsgesta. Á föstudagskvöldinu verður þó undantekning þegar þær Ína Berglind og Jóna Þyrí syngja við setningu mótsins á Vilhjálmsvelli kl. 20:00.

 

Tónleikadagskráin:

Fimmtudagur 31. júlí: DJ Hilmir Dagur Ólafsson og DJ Sigríður Svandís Hafþórsdóttir.

Föstudagur 1. ágúst: Ína Berglind Guðmundsdóttir og Jóna Þyrí Snæbjörnsdóttir syngja á mótssetningu.

Laugardagur 2. ágúst: DJ Ragga Hólm, Stebbi Jak og Hafþór og Júlí Heiðar og Dísa.

Sunnudagur 3. ágúst: Magni Ásgeirsson, DJ Ernir Daði og VÆB.

 

Allt um mótið og skráningu hér