Fara á efnissvæði
19. apríl 2024

Gyða er nýr formaður ÍA

„Þetta var vel skipulagt þing þar sem mikið var gert á stuttum tíma,“ segir Guðmunda Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akraness (ÍA).

Nokkuð var um lagabreytingar á þinginu, sem fór fram að Garðavöllum í gær, fimmtudaginn 18. apríl. Þingið tók eina klukkustund og fjörutíu mínútur, að meðtöldu 15 mínútna matarhléi.  Á meðal samþykkta voru reglur um úthlutun á lottófjármunum. Þetta var fyrsta skiptið sem það var gert. 

 

Fyrsta gullmerkið UMFÍ hjá ÍA

Á þinginu var meðal annars Hrönn Ríkharðsdóttir, fráfarandi formaður sæmd Gullmerki bæði UMFÍ og ÍSÍ. Þetta var fyrsta Gullmerki UMFÍ sem afhent er á Skaganum eftir aðild ÍA að UMFÍ árið 2019. 

Hrönn hefur setið í stjórn ÍA frá árinu 2020 og formaður frá 2022. Hrönn var formaður ÍA en gaf ekki kost á sér áfram. Nýr formaður er Gyða Björk Bergþórsdóttir. Hún er með yngri formönnum sambandsaðila UMFÍ enda fædd árið 1991 og því 33 ára á þessu ári. Gyða hefur verið ritari bandalagsins síðastliðin tvö ár.

Gyða er jafnframt fjórða konan sem kosin er formaður ÍA.

Aðrir í stjórn gáfu öll kost á sér áfram og voru kjörin með lófaklappi. Einn nýr tekur sæti í varastjórn ÍA en það er Breki Berg Guðmundsson. 

Samstarf í verki

Bryddað var upp á fleiri nýjungum á þinginu þegar Guðrún Guðmundsdóttir fékk þar afhent starfsmerki UMFÍ. Guðrún, sem bjó áður í Reykhólasveit, sem er á sambandssvæði UDN, átti að fá merkið afhent daginn áður. Hún var hins vegar fjarverandi enda flutt til Akraness. Hún mætti því á þing ÍA og var afhent merkið þar. 

„Við sýndum þarna samstarf og samstöðu í verki,“ segir Guðmunda en góðu samstarfi hefur verið komið á á milli íþróttahéraða á Vesturlandi. 

Guðmundur G. Sigurbergsson var fulltrúi UMFÍ á þingi ÍA og afhenti hann viðurkenningar og heiðranir fyrir hönd UMFÍ. Hann flutti jafnframt ávarp.

Fjórir einstaklingar voru sæmdir bandalagsmerki ÍA að þessu sinni og er þeim þakkað það góða starf sem þau hafa innt af hendi í þágu íþróttamála á Akranesi. Þau hlutu: 

  • Berglind Helga Jóhannsdóttir – Golfklúbburinn Leynir
  • Halldór B. Hallgrímsson – Golfklúbburinn Leynir
  • Oddur Pétur Ottesen – Golfklúbburinn Leynir
  • Stefán Gísli Örlygsson – Skotfélag Akraness

Samfélagsskjöldur ÍA var afhentur í þriðja sinn, er hann afhentur því fyrirtæki sem stjórn ÍA velur úr þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem styrkja og styðja við bakið á íþróttafélögum á Akranesi.

Í ár var það Vinnustofa Bjarna Þórs listamanns. Bjarni Þór hefur stutt vel við bakið á þeim íþróttafélögum sem leita til hans með gjafir í margskonar fjáraflanir. Það eru ófáar myndirnar eftir Bjarna Þór sem hanga á veggjum bæjarbúa sem happdrættisvinningar, kvennakvöld, karlakvöld eða hvað það er sem fjáröflunin heitir alltaf er hann til í að gefa af sér.

 

Væntingar um betri mætingu

Þingið var ágætlega sótt en 70 fulltrúar áttu þar rétt á setu. Aðeins 42 mættu Einungis vantaði fulltrúa frá einu félagi. Þingforseti var O. Pétur Ottesen, sem stýrði þinginu með sóma.

 

Á myndinni hér að ofan má sjá Guðmund Sigurbergsson frá UMFÍ ásamt Hrönn og Hildi Karen Aðalsteinsdóttur frá ÍSÍ.

Hér að neðan má sjá Guðmundu með Guðrúnu og og Hrönn.