Fara á efnissvæði
23. júní 2017

Hafa ekki sést í 40 ár

„Það er gaman að hittast eftir þetta langan tíma,“ segja þeir Einar, Sveinn og Gunnlaugur frá Siglufirði, sem fylgdust með konum sínum keppa í boccía á Landsmóti UMFÍ 50+ sem hófst í Hveragerði í morgun. Mótið stendur fram á sunnudag. Þremenningarnir hafa ekki hist í 40 ár eða síðan árið 1977.

Gunnlaugur er elstur þremenninganna, 86 ára, Einar er 83 ára og Sveinn áttræður. Gunnlaugur er sá eini þeirra sem keppti í íþróttum á sínum yngri árum og hinir tveir segja að hafi sýnt góða takta í boltanum.

Þeir ræða um það saman að sextán Siglfirðingar, bæði keppendur og makar, hafi komið að norðan á mótið, þar á meðal Einar og Sveinn. Gunnlaugur og kona hans eru hins vegar búsett í Garðabæ. Frá Garðabæ eru fimmtán manns, bæði keppendur og makar.

Rúmlega 500 manns eru skráðir til keppni í fjölmörgum greinum og margir í fleiri en einni grein. Munar þar um að greiða þarf aðeins fyrir eina grein og er fyrir sama verð hægt að skrá sig til þátttöku í mörgum.

Þar af hafa aldrei fleiri verið skráðir til keppni í boccía eða 160 manns í 44 riðlum.

Mikið verður um að vera í Hveragerði á meðan mótinu stendur um helgina. Félag eldri borgara verður með opið hús og tónleikar á föstudeginum. Á laugardag verður hátíðarkvöldverður með skemmtiatriðum og dansiballi. Síðasta greinin á mótinu er jafnframt geysivinsæl. Það er stígvélakastið sem margir þekkja og hefur fest sig í sessi sem aðalmerki Landsmót UMFÍ 50+.

Landsmót UMFÍ 50+ hefur verið haldið ár hvert frá 2012 og er þetta í fyrsta sinn sem Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK) er mótshaldari.

Nánari upplýsingar um mótið á www.umfi.is