Fara á efnissvæði
11. mars 2024

Hanna Carla stýrir samræmingu svæðastöðva

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) hafa ráðið Hönnu Hönnu Cörlu Jóhannsdóttur til að stýra innleiðingu og samræmingu á svæðastöðvum íþróttahéraða. 

Um er að ræða tímabundna ráðningu og hefur hún þegar hafið störf.

Þau Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, bjóða Hönnu Cörlu velkomna til starfa. Hanna Carla verður staðsett í Íþróttamiðstöðinni við Laugardal.
 
Hanna Carla Jóhannsdóttir er íþróttafræðingur að mennt og með meistaragráðu í forystu og stjórnun. Hún kemur til starfa frá HK  þar sem hún gegndi stöðu framkvæmdastjóra í rúm fimm ár og kom þar að margvíslegum verkefnum er snúa að íþrótta- og lýðheilsustarfi. Auk þess hefur Hanna Carla setið í stjórnum innan íþróttahreyfingarinnar, bæði á vegum ungmennasambands og einnig á vegum aðildarfélags.

„Ég er full tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni sem markar tímamót fyrir íþróttahreyfinguna á Íslandi. Mitt hlutverk verður að leiða verkefnið áfram ásamt þeim starfsmönnum sem ráðnir verða til starfa. Við munum á næstu dögum auglýsa sextán stöður við átta nýjar svæðisstöðvar víðsvegar um landið sem munu þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins. Ég er þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt til að stýra þessu mikilvæga verkefni og fá tækifæri til að nýta þá reynslu og þekkingu sem ég hef öðlast innan starfa minna í íþróttahreyfingunni undanfarin ár,“ segir Hanna Carla. 

 

Tengdar fréttir:

Íþróttahreyfingin undirbýr 16 ný störf

Átta nýjar stöðvar til eflingar íþróttastarfs

Samstaða um eflingu íþróttastarfs á landsvísu

Tímamótatillaga samþykkt á þingi UMFÍ