Fara á efnissvæði
06. mars 2024

Hvar eru karlarnir?

Afar fáir karlar eru skráðir til þátttöku á ráðstefnu sem fjallar um konur í íþróttum, stjórnum og í starfi íþróttafélaga. Aðeins 15 karlar eru skráðir. Á sama tíma eru yfir hundrað konur skráðar til þátttöku.

„Íþróttir hafa verið mjög karllægar og við munum aldrei breyta neinu í því karllæga samfélagi - nema karlarnir séu til í að breyta. Öðruvísi gerist aldrei neitt,“ segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi þingkona og bæjarstjóri í Mosfellsbæ. 

Ragnheiður mun stýra ráðstefnunni Konur og íþróttir, forysta og framtíð, sem haldin verður á föstudag í tilefni af Alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) standa að ráðstefnunni. Þar verða konur í fyrsta sæti enda fjallað um konur í stjórnum íþróttafélaga, konur í dómgæslu og konur í þjálfun ásamt mörgum öðrum þáttum sem snúa að þátttöku karla og kvenna í íþróttum. Eru konur líklegri til aðtaka þátt í stjórnum íþróttafélaga heldur en þjálfun og dómgæslu á efsta stigi? 

Á meðal fyrirlesara á ráðstefnunni eru félagsfræðingurinn Viðar Halldórsson, sem ætlar að skoða hverjar helstu áskoranir kvenna eru í íþróttum, Klara Bjartmarz, sem var að hætta sem framkvæmdastjóri KSÍ, Hulda Bjarnadóttir, forseti Golfsambandsins flytur erindi um tækifæri kvenna til áhrifa, Hulda Mýrdal á Heimavellinum flytur erindið Að breyta leiknum, handboltaþjálfarinn Díana Guðjónsdóttir fjallar um ýmsar skrítnar spurningar sem þjálfarar og konur fá.  

Auður Inga Þorsteinsdóttir, sem er fyrsta konan til að setjast í stól framkvæmdastjóra UMFÍ, lýkur svo deginum með samantekt. 

Konur með derring

Eftirtektarvert er hversu fáir karlar eru skráðir á ráðstefnuna eða 15 á móti 100 konum. Næstum hundrað ætla að vera á staðnum en um 30 ætla að fylgjast með ráðstefnunni í beinu streymi. 

Ragnheiður segir halla mjög á hlut kvenna í mörgum þáttum íþrótta. 

„Þetta er auðvitað misjafnt eftir greinum. En ég get alveg tekið undir að konur eru tregari til að gefa kost á sér í stjórnum íþróttafélaga. Margar konur hafa upplifað það að menn vilji skreyta stjórnir með konum. Það kemur þeim svo á óvart þegar þær eru með derring. Það er þess vegna mjög þarft að ræða þetta. Strákarnir verða líka að velta fyrir sér ástæðu þess að erfitt er að fá konur til að bjóða sig fram í stjórnir félaga,“ segir Ragnheiður. 

Ítarlegri upplýsingar um ráðstefnuna

Ráðstefnan fer fram á Fosshóteli, Þórunnartúni 1 á milli klukkan 09:00 – 12:30.  Aðgangur er ókeypis en nauðsynlegt er að skrá á viðburðinn og er skráningin opin til 6. mars.  Skráning (google.com).  Fyrir þau sem ekki komast, verður streymt frá ráðstefnunni.

 

Dagskrá 

Setning ráðstefnunnar
Olga Bjarnadóttir, annar varaforseti ÍSÍ. 

Eru einhverjar áskoranir kvenna í forystu íþrótta?
Viðar Halldórsson félagsfræðingur

Ferðalagið innan knattspyrnuheimsins
Klara Bjartmarz, fyrrverandi framkvæmdastjóri KSÍ

Tækifæri til að hafa áhrif
Hulda Bjarnadóttir, forseti Golfsambands Íslands

Pallborðsumræður

Ragnhildur Skúladóttir stýrir pallborði; Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri FSÍ, Hannes S. Jónsson, framkvæmdastóri KKÍ, Guðmunda Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ÍA, Klara Bjartmarz, fyrrverandi framkvæmdastjóri KSÍ, Hulda Bjarnadóttir, forseti Golfsambandsins.

Að fóta sig í karllægum heimi
Bríet Bragadóttir, alþjóðlegur knattspyrnudómari

Segðu já!
Erna Héðinsdóttir, dæmir á ÓL í París í lyftingum

Mikilvægi dómgæslu í íþróttum
Hlín Bjarnadóttir, dæmir á Ól í áhaldafimleikum

Hvernig breytum við leiknum?
Hulda Mýrdal, Heimavöllurinn

Hvenær borðið þið eiginlega?
Díana Guðjónsdóttir handboltaþjálfari

Að þjálfa konur vs karla, er einhver munur?
Gunnar Páll Jóakimsson frjálsíþróttaþjálfari

Konur í þjálfun og þjálfun á konum í knattspyrnu
Lára Hafliðadóttir situr í stjórn HKK

Hvað gerum við nú – stutt rafræn samantekt

Áfram veginn!
Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ


Boðið verður upp á morgunhressingu og er viðburðurinn opinn öllum. 

Nánari upplýsingar um viðburðinn á Facebook: Konur & íþróttir - forysta og framtíð | Facebook

ÍSÍ og UMFÍ hvetja öll kyn til að mæta og láta sig varða um málefnið!

 

Nánari upplýsingar veita Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri Fræðslu- og almenningsíþróttasviðs ÍSÍ (ragnhildur@isi.is, s. 863-4767) og Ragnheiður Sigurðardóttir, verkefnastjóri UMFÍ (ragnheidur@umfi.is, s. 867-1147).

 

Þú getur smellt á myndina hér að neðan og skráð þig.