Fara á efnissvæði
27. júlí 2017

Jói Fel keppir í kökuskreytingum á Unglingalandsmóti UMFÍ

„Þetta er mjög skemmtilegt, ekki í fyrsta skiptið sem þetta gerist en sýnir að maður hefur gert eitthvað rétt í gegnum tíðina,“ segir landsþekkti bakarinn og sjónvarpskokkurinn Jói Fel.

Kökuskreytingar eru ein þeirra 24 greina sem keppt verður í á Unglingalandsmóti UMFÍ á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Eitt liðanna sem keppir á mótinu kallar sig Jóa Fel í höfuðið á bakarameistaranum. Þetta eru 17 ára ungmenni sem keppa undir merkjum HSK (Héraðssambandið Skarphéðinn).

Sjáðu allar greinarnar sem eru í boði á mótinu.

Jói er hæstánægður með það. Hann er formaður Landssambands bakarameistara og veit hvaða töfrum og trikkum þarf að beita til að skreyta góða köku.

„Þetta er list og maður þarf að hafa gott litaskyn,“ segir Jói Fel. „En vandinn er að einfaldleikinn er stundum bestur.“

 

Prumpandi einhyrningar og Skagfirska mafían

Talverður fjöldi þátttakenda er skráður í keppni í kökuskreytingum á Unglingalandsmóti UMFÍ. Stelpur og strákar á aldrinum 11 til 18 ára keppa þar saman í einum kynjaflokki. Hægt er að keppa sem einstaklingar eða í tveggja manna liðum og veitt eru verðlaun hvoru tveggja í flokki einstaklinga og lið flokki.

Keppnin fer fram í Egilsstaðaskóla á síðasta degi Unglingalandsmótsins.

Keppendur í kökuskreytingum þurfa að koma með áhöld með sér að heiman. Í keppninni sjálfri fá þeir tilbúna hringlaga botna á staðnum og verður þar ýmiskonar hráefni til skreytinga, s.s. krem, litskrúðugt nammi, kökuskraut og fleira. Keppendur fá klukkustund til að vinna að skreytingunni.

Frumleg nöfn á liðum sem hafa skráð sig til þátttöku einkenna Unglingalandsmót UMFÍ. Þar á meðal er Skagfirska mafían sem keppir undir merkjum Ungmennasambands Skagafjarðar, Prumpandi einhyrningar, sem keppir í nokkrum greinum, Bleiku pardusarnir og fleiri í svipuðum dúr. Flest liðin og þátttakendur skrá sig í margar greinar á mótinu

Skráning er í fullum gangi á Unglingalandsmót UMFÍ á www.umfi.is og er hægt að skrá sig þar til miðnættist sunnudaginn 30. ágúst.

Sjáðu allar greinarnar sem eru í boði.

Skráðu þig á Unglingalandsmót UMFÍ