Júlí og Dísa, Væb og margir fleiri á Unglingalandsmóti

Dagskrá Unglingalandsmóts UMFÍ á Egilsstöðum er fjölbreytt eins og önnur ár. Alla helgina verður keppt í fjölmörgum íþróttagreinum ásamt því að þátttakendur fá tækifæri til að prófa og kynnast nýjum greinum. Auk þess er spennandi skemmti- og afþreyingardagskrá á hverjum degi. Á kvöldin verða tónleikar og fjör fyrir alla fjölskylduna.
Tónleikar og skemmtun í Bragganum
Allir tónleikar helgarinnar fara fram í Bragganum sem er við tjaldsvæði mótsins. Á föstudagskvöldinu verður þó undantekning þegar þær Ína Berglind og Jóna Þyrí syngja við setningu mótsins á Vilhjálmsvelli kl. 20:00.
Fjölbreytt og skemmtileg tónlistardagskrá alla helgina
Nóg verður um að vera alla dagana. Mótið hefst á fimmtudeginum 31. júlí og það kvöld koma fram DJ Hilmir Dagur Ólafsson og DJ Sigríður Svandís Hafþórsdóttir.
Við setningu mótsins daginn eftir koma þær Ína Berglind Guðmundsdóttir og Jóna Þyrí Snæbjörnsdóttir fram.
Laugardaginn 2. ágúst stíga á stokk DJ Ragga Hólm, Stebbi Jak og Hafþór ásamt Júlí Heiðari og Dísu.
Á lokakvöldi mótsins á sunnudeginum koma svo fram Magni Ásgeirsson, DJ Ernir Daði og eldhressu bræðurnir í VÆB.










Tónleikadagskrá:
- Fimmtudagur 31. júlí: DJ Hilmir Dagur Ólafsson og DJ Sigríður Svandís Hafþórsdóttir
- Föstudagur 1. ágúst: Ína Berglind Guðmundsdóttir og Jóna Þyrí Snæbjörnsdóttir syngja á mótssetningu
- Laugardagur 2. ágúst: DJ Ragga Hólm, Stebbi Jak og Hafþór og Júlí Heiðar og Dísa
- Sunnudagur 3. ágúst: Magni Ásgeirsson, DJ Ernir Daði og VÆB
Skráning á Unglingalandsmót og í greinar
Opið er fyrir skráningu til 27. júlí næstkomandi. Miði á Unglindalandsmótið er aðgangur fyrir einn þátttakanda á aldrinum 11 – 18 ára, aðgangur að tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna, alla afþreyingu, tónleika, í sund og fjör fyrir unga sem aldna. Greitt er sérstaklega fyrir rafmagn á tjaldsvæði en það er gert í gegnum skráningakerfi mótsins.
Greinar mótsins eru:
Borðtennis – fimleikar – frisbígolf – frjálsar íþróttir – glíma – golf – grasblak – grashandbolti – hestaíþróttir – hjólreiðar – knattspyrna – krakkahreysti – kökuskreytingar – körfubolti – motocross – pílukast – rafíþróttir – skák – stafsetning – sund og upplestur.