Fara á efnissvæði
15. júní 2017

Keppt í bókakasti í Hveragerði

Forstöðumaður Bókasafns Hveragerðis tryggir afskrifuðum bókum skemmtilegt framhaldslíf.

„Okkur langaði til að halda skemmtilega keppni með bókum samhliða Landsmóti UMFÍ 50+ í Hveragerði og Jónsmessunni,“ segir Hlíf Sigríður Arndal, forstöðumaður Bókasafnsins í Hveragerði.

Bókasafnið, Listvinafélag bæjarins, Norræna félagið í Hveragerði og bókabæirnir austanfjalls, standa fyrir bókakasti og fleiri greinum þar sem bækur koma i, keppni í að muna bókatitla eða höfunda bóka og fleiri greinum sem tengjast bókum laugardaginn 24. júní.


Nota druslurnar

Bókasafnið hefur einu sinni áður haldið keppni á Blómstrandi dögum í Hveragerði þar sem bækur voru notaðar á nýstárlegan hátt. Nú vilja forsvarsmenn safnsins leyfa fleirum að njóta og taka þátt í skemmtuninni.

„Við splæsum einhverjum druslum í þetta, bókum sem við höfum afskrifað og eru ekki notaðar lengur, bækur sem eru orðnar lélegar og hafa verið settar til hliðar,“ segir Hlíf og bætir við að þetta sé kærkomið tækifæri til að veita bókum framhaldslíf og vekja athygli á bókum á sama tíma.

Nokkrar bókagreinar

Greinarnar sem bókasafnið býður upp á eru eftirfarandi:

Hlíf segir hugsanlegt að keppni í bókaflutningum verði bætt við. Sú keppni snýst um að flytja bækur úr einum kassa í annan á sem stystum tíma.

Ekki liggur fyrir hvort boðið verði upp á liðakeppni. Allt fer það eftir þátttöku í bókakeppninni.
Á sama tíma laugardaginn 24. júní mun Norræna félagið í bænum halda Jónsmessuhátíð. Reist verður miðsumarsstöng í bænum og grillað brauð yfir opnum eldi.

Hlíf beinir því til fólks sem vill taka þátt í keppnum tengdum bókum að best sé að skrá sig fyrirfram hjá henni og senda tölvupóst á netfangið hlifarn@hveragerdi.is. Fólk getur líka mætt á staðinn og skráð sig.

Landsmót UMFÍ 50+ fer fram í Hveragerði dagana 23-25 júní.

Skráning á mótið er nú í fullum gangi.

Nánari upplýsingar um mótið og dagskrá í bænum er að finna á síðunni: http://www.umfi.is/landsmot-umfi-50

Hér geturðu skráð þig á mótið