Fara á efnissvæði
03. maí 2024

Kulsæknir Pólverjar í Forsetahlaupi UMFÍ

Rúmlega tíu félagar í Zimnolubni Islandi hafa skráð sig í Forsetahlaup UMFÍ. Þau segja mikilvægt að fólk stundi hreyfingu með öðrum. 

„Við erum hópur fólks frá Póllandi sem njótum þess að hittast og hreyfa okkur saman. Forsetahlaup UMFÍ fannst okkur góður viðburður, ekki erfiður og þá geta allir tekið þátt,“ segir Agnieszka Narkiewicz-Czurylo. 

Hún stofnaði félagið Zimnolubni Islandia fyrir fjórum árum og eru nú í honum í kringum 90 Pólverjar sem búsettir eru á Íslandi – og ein íslensk kona. Virkir meðlimir eru á bilinu 20-30 talsins og gera þeir ýmislegt saman.

Zimnolubni Islandia á Facebook

Félagið var upphaflega stofnað í kringum sjósund og köld böð og heitir upp á íslensku Kuldaunnendur Íslands. Meðlimir hittast tvisvar í viku til að fara í sjósund og synda í köldu vatni. Þess á milli er ýmislegt fleira gert, svo sem farið á Esjuna og gert fleira skemmtilegt. Framundan er þátttaka í Puffin Run í Vestmannaeyjum og Forsetahlaup UMFÍ, sem fer fram á Álftanesi 9. maí. 

Agnieszka segir mikilvægt fyrir stóran hóp fólks af erlendu bergi brotið að geta sameinast í skemmtilegum félagsskap eins og Zimnolubni Islandia.

„Mörg okkar eru ein á Íslandi. Það er mikilvægt fyrir allt fólk að finna félagsskap og hitta aðra. Markmiðið með hópnum okkar er að fólk hittist og hreyfi sig saman á meðan það spjallar, stundi einhverja hreyfingu. Við förum mikið í sjósund og hlaupum en aðrir ganga. Við forum líka í blak. Það er aðeins mikilvægt að hreyfa sig,“ bætir Agnieszka við. 

Eftirtektarvert er að tveir hópar Pólverja taka þátt í hlaupinu í ár. Hinn hópurinn eru meðlimir félagasamtakanna Zabiegani Reykjavík, sem styðja við börn með fatlanir.

Nú þegar eru níu hlauparar skráðir í skokkhópi Zimnolubni Islandi og fjórir frá Zabiegani Reykjavík.

Heimasíða Zabiegani Reykjavík  

 

Sumir hlaupa en aðrir ganga

Agnieszka á frumkvæðið að því að finna viðburði fyrir hópinn og leita kaldra staða sem henta fyrir unnendur kulda á Íslandi. Hún segir Forsetahlaup UMFÍ góðan viðburð fyrir fólk sem vill hreyfa sig á eigin forsendum. 

„Þetta eru bara fimm kílómetrar. Allir geta farið hana, sumir hlaupið og aðrir gengið hana, bæði börn og fullorðnir,“ segir hún en töluverður fjöldi félaga í Zimnolubni Islandia hefur þegar skráð sig til þátttöku. 

 

Allir með í Forsetahlaupi UMFÍ

Skráning er í fullum gangi fyrir Forsetahlaup UMFÍ. Guðni Th. Jóhannesson, verndari UMFÍ, hefur ætíð tekið virkan þátt í viðburðinum og hlaupið með þátttakendum. Hlaupið fer fram á sama tíma og bæjarhátíðin Forsetabikarinn, sem haldinn er á Álftanesi. Ungmennafélag Álftaness og Embætti forseta Íslands stendur að viðburðinum.

Hlaupaleiðin í Forsetahlaupi UMFÍ er létt og góð og hentar flestum. Viðburðurinn hefst klukkan 10:00 og lýkur honum klukkan 12:00. Hlaupið er fyrir alla fjölskylduna og einstaklinga. Tíminn skiptir ekki máli heldur er áherslan á að fólk skemmti sér, bæði í hlaupinu og samverunnar. 

Skráning fer fram á hlaup.is.

Þátttökugjald er 500 kr. fyrir 17 ára og yngri og 1.500 kr. fyrir 18 ára og eldri. 

 

Forsetahlaup UMFÍ á hlaup.is