Fara á efnissvæði
10. janúar 2025

Ræddu um íþróttamál í Fjarðabyggð

Magnús Árni Gunnarsson er öflugur málsvari íþróttastarfs í Fjarðabyggð og brennur fyrir málefninu. Hann kom í heimsókn í þjónustumiðstöð UMFÍ í dag til að ræða um stöðu mála í sveitarfélaginu og stuðning Fjarðabyggðar við íþróttastarfið og ýmsar áskoranir, svo sem stöðu sjálfboðaliða.

Með heimsókninni fylgdi Magnús, sem er verkefnastjóri íþróttamannvirkja í Fjarðabyggð, eftir heimsókn þeirra Jóhanns Steinars Ingimarssonar, formanns UMFÍ, og Auðar Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ, sem funduðu með bæjarráði Fjarðabyggðar á Reyðarfirði fyrr í vikunni. Með í för var Erla Gunnlaugsdóttir, annar af tveimur svæðisfulltrúum íþróttahéraðanna sem starfa á Austurlandi. Magnús var ekki við þegar þremenningana bar að garði.

Saman ræddu þau um ýmis mál tengd íþróttastarfi, þátttöku í starfinu, áskoranir félaganna og iðkenda og ýmislegt fleira. Áberandi var þungi ferðakostnaðar sem leggst á íþróttaiðkendur á Austurlandi, eins og víðar á landsbyggðinni.

Á myndinni hér að ofan má sjá Magnús þegar hann kom í þjónustumiðstöðina. 

Mynd var tekin í heimsókninni á Reyðarfjörð. Þar má sjá eftirfarandi: Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, Stefán Þór Eysteinsson, bæjarfulltrúi, Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, Ragnar Sigurðsson formaður bæjarráðs, svæðisfulltrúinn Erla Gunnlaugsdóttir,  Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri og Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ.