Fara á efnissvæði
19. apríl 2024

Rebekka og Guðrún hlutu starfsmerki UMFÍ

„Þetta var vinnuþing. Við þurftum að uppfæra lög og reglugerðir og það gekk ágætlega,“ segir Jóhanna Sigrún Árnadóttir, formaður Ungmennasambands Dalamanna og Norður Breiðfirðinga (UDN) um ársþing sem haldið var í vikunni. Á meðal reglugerða sem þurfti að uppfæra fjallaði um íþróttamanneskju ársins. 

Þær Guðrún Guðmundsdóttir og Rebekka Eiríksdóttir frá Ungmennafélaginu Aftureldingu í Reykhólahreppi hlutu starfsmerki UMFÍ. Hvorug þeirra var þó á staðnum til að taka við merkjunum. Guðrún er reyndar flutt á Akranes og var henni afhent merkið á þingi Íþróttabandalags Akraness í gær.

ÍSÍ afhenti silfurmerki, sem Valberg Sigfússon frá hestamannafélaginu Glað hlaut. 

Engin breyting varð á stjórn. Nokkuð var um lagabreytingar á þinginu og gekk eitt félag úr UDN. Það er Ungmennafélagið Stjarnan, sem hefur hætt hefðbundinni íþróttastarfsemi. Félagið er hins vegar enn starfandi og heldur úti góðum samfélagsviðburðum eins og þorrablót og fleira. Eftir brotthvarf Umf Stjörnunnar standa eftir í UDN sjö virk aðildarfélög.

Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ, var gestur þingsins og hélt hann ávarp um verkefni UMFÍ, viðburðina, Unglingalandsmót UMFÍ og Landsmót UMFÍ 50+ ásamt fleiri viðburðum. 

Þingið var haldið í Dalabúð á vegum aðildarfélagsins Ólafs Pá. Svo skemmtilega vill til að félagið fagnar 115 ára afmæli um þessar mundir. Í tilefni af því voru fengnar að láni gamlar fundargerðarbækur hjá héraðsskjalasafninu, sem voru til sýnis á meðan þinginu stóð.