Sumarbúðir á Reykjum í fyrsta sinn
UMFÍ starfrækir sumarbúðir fyrir 12 til 13 ára börn á Reykjum í Hrútafirði í sumar. Þetta er tilraunaverkefni sem spennandi verður að sjá, segir forstöðumaður búðanna.
„Okkur langar að prófa nýjar nálganir og helst auðvitað til að nýta þessa frábæru aðstöðu í Skólabúðunum á Reykjum og bjóða ungmennum landsins að koma og eiga skemmtilega upplifun í Sumarbúðum UMFÍ,“ segir Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Skólabúða UMFÍ.
UMFÍ ætlar að vera með sumarbúðir á Reykjum í sumar. Þetta verða þær fyrstu í sögu UMFÍ ef frá eru taldar sumarbúðir sem ungmennafélögin starfræktu á árum áður víða um land. Sumarbúðirnar eru hugsaðar fyrir 12 til 13 ára börn, fædd á árunum 2012 og 2013. Í búðunum fá þátttakendur tækifæri til þess að efla leiðtogahæfni sína og vinna með styrkleika og sjálfsmynd. Unnið er í nánasta umhverfi, fjörunni og þeirri náttúru sem umlykur Reyki. Einnig er íþróttahús og sundlaug á Reykjum.
Sumarbúðirnar verða í tvær vikur. Strákar og stálp verða þar frá mánudeginum 10. júní til fimmtudagsins 13. júní en stelpur og stálp hina vikuna á eftir, þ.e. 16. júní til fimmtudagsins 19. júní. Fyrirkomulagið byggir á Skólabúðum UMFÍ en dagskráin þó með öðrum hætti, að sögn Sigurðar.
Við komuna á Reyki er þátttakendum skipt upp í herbergi og farið yfir dagskrá og fyrirkomulag. Fjölbreytt dagskrá er alla vikuna þar sem útiveru, hreyfingu, samvinnu og samveru er fléttað saman. Starfsfólk sumarbúðanna býr yfir mikilli reynslu af því að vinna með ungmennum þar sem þau vinna öll í skólabúðum UMFÍ sem fara fram á staðnum yfir vetrartímann.
„Við ætlum að nýta náttúruna og allt svæðið á Reykjum mun meira en við gerum í skólabúðunum. Við erum spennt að sjá hverjar viðtökurnar verða,“ segir hann. Skráning fer fram í gegnum Sportabler og kostar vikan 80.000 krónur á barn.
Sumarbúðirnar í hnotskurn
Sumarbúðunum er skipt upp í stráka/stálp og stelpur/stálp.
- Strákar og stálp 10. júní - 13. júní 2025.
- Stelpur og stálp 16. júní - 19. júní 2025.
Verð
Verð fyrir dvölina er 80.000 kr.
Fjöldi
Aðeins 80 börn komast í sumarbúðirnar í hverri viku.
Nánari upplýsingar
Fyrir nánari upplýsingar er hægt að hafa samband við Sigurð Guðmundsson, forstöðumann á Reykjum á netfanginu siggi@umfi.is og í síma 861 3379.