Tækifæri geta falist í sameiningu félaga

Íþróttahéruð landsins eru misvirk og misburðug, sum eru geysistór og öflug með starfsmenn og framkvæmdastjóra í fullu starfi en önnur með engan framkvæmdastjóra. Íþróttahéruð með framkvæmdastjóra á launum eru öflugri en þau sem eru með starfsfólk í lágu hlutfalli eða engan starfsmann. Sama máli gegnum um íþróttafélögin um allt land, sum eru mjög virk en önnur ekki. Þetta er á meðal þess sem fram kom í kynningu svæðisfulltrúa íþróttahéraðanna á sameiginlegum fundi stjórnar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ).
Svæðisfulltrúarnir eru sextán um allt land á átta stöðum og eru tveir á hverri stöð. Þeir hófu störf á síðasta ári. Svæðisfulltrúarnir hafa unnið að greiningum og aðgerðaráætlunum um allt land, skoðað stöðu íþróttahéraða, virkni þeirra og hlutverk, samband við sveitarfélög, aðildarfélög og margt fleira.
Á mörgum stöðum er lítill skilningur og lítið samband á milli íþróttahéraða við starfsfólk sveitarfélaga og sveitarstjórnir. Vilji er til að efla samstarfið og vinna meira saman.
Ljóst er að héraðssamböndin eru misvirk og felast tækifæri í því að efla sum þeirra með sameiningu. Þá hefur komið í ljós að í dreifðum og fámennum byggðum er hátt hlutfall íbúa svæðanna í einhvers konar starfi sem sjálfboðaliðar fyrir íþróttafélög og ýmis önnur félagasamtök.








