Fara á efnissvæði
04. september 2025

Ungt fólk ræðir um félagslega töfra

Ungmennaráð UMFÍ skipuleggur fjölmenna ráðstefnu fyrir ungt fólk. Kastljósinu verður beint að lýðheilsu og kostum þess að taka þátt í félagsstarfi. 

„Ég vona að ráðstefnan skili sér í ungmennum fullum af innblæstri sem munu sjá að þau geta haft áhrif á samfélagið sitt, fengið hugmyndir, fylgt þeim eftir og lært að gera þær að veruleika,“ segir Halla Margrét Jónsdóttir, formaður Ungmennaráðs UMFÍ.  

Þessa dagana stendur hún og ungmennaráðið í ströngu við undirbúning ráðstefnunnar Ungt fólk og lýðheilsa, sem fram fer helgina 12. – 14. september í húsnæði Skólabúða UMFÍ á Reykjum í Hrútafirði.  

 

Hverjir eru félagslegu töfrarnir?

Ungmennaráð UMFÍ hefur veg og vanda að allri skipulagningu og framkvæmd ráðstefnunnar með aðstoð starfsfólks UMFÍ. Ráðið er skipað tólf einstaklingum á aldrinum 16 – 26 ára. Sex fulltrúar tóku þátt í undirbúningi og framkvæmd síðustu ráðstefnu. Þau búa því að reynslu og þekkingu sem þau deila með nýjum fulltrúum.  

Ungmennaráðstefnan er umfangsmesta verkefni ráðsins á hverju ári og eru mismunandi áhersluatriði í hvert sinn. Að þessu sinni er kastljósinu beint að félagslegum töfrum. 

Töfrar þessir vísa til þeirra mikilvægu en ósýnilegu gilda sem myndast í samskiptum og samveru fólks. Þau sem móta hugmyndir, hegðun og sjálfsmynd fólks, því sem laðar fólk hvert að öðru, gerir hóp að liði og samfélag að samfélagi. Ungmennaráðið fundaði um skipulag ráðstefnunnar í síðustu viku. Á fund ráðsins kom Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, sem fjallað hefur mikið um félagslega töfra og tengsl fólks í samfélaginu. Hann mun meðal annars halda erindi á ráðstefnunni um félagslega heilsu. 

Viðar hefur skoðað og velt fyrir sér hvernig fólk getur byggt upp gott og heilbrigt samfélag í gegnum félagslega töfra en einnig hvað ýtir undir hið gagnstæða, firringu nútímasamfélagsins. Haft hefur verið eftir Viðari að hann telji samfélagið ekki endilega á réttri leið vegna þess að við séum að draga úr samskiptum augliti til auglitis og eigum í auknum mæli samskipti í gegnum skjámiðla sem eru miklu takmarkaðri og ýta undir alls konar firringu, eins og aukna skautun, einmanaleika og fleira. 

 

Aukið sjálfstraust á ráðstefnu 

Ráðstefnan hefur verið haldin næstum árlega frá árinu 2009 og hefur hún fest sig í sessi sem mikilvægur viðburður fyrir ungt fólk á Íslandi.  Á ráðstefnunni í fyrra var fjallað með almennum hætti um lýðheilsu. Nú verður kafað enn dýpra í félagslega heilsu.  

Segja má að ráðstefnan sé þrískipt í ár.  

„Við byrjum aðeins fyrr en við höfum gert á föstudeginum til að hrista hópinn og þétta hann ennþá meira saman. Ráðstefnugestum verður skipt upp í svokallaða heimahópa og munu fulltrúar úr ungmennaráði UMFÍ stýra hverjum þeirra. Hver hópur mun vinna saman að verkefni yfir helgina en þau hafa alveg frjálsar hendur hvað þau gera, hvort sem það er TikTok-vídeó, lag, plakat eða leikur. Svo munu hóparnir sýna frá sýnu verkefni á sunnudaginn. Einnig mun keppni milli heimahópanna standa yfir alla helgina og munum við byrja laugardaginn á hreyfingu, skemmtun og boðhlaupi milli hópanna í íþróttahúsinu á Reykjum.

Eftir hópeflið í íþróttahúsinu munu hóparnir blandast og vinna saman í vinnusmiðjum. Viðar Halldórsson ætlar að byrja dagskrána í Bjarnaborg á erindi um félagslega töfra. Hann mun síðan aðstoða með vinnu á síðustu vinnusmiðjunni þar sem allir þátttakendur koma saman, sem við horfum til að muni hvetja fólk til að gefa kost á sér í félagsstörfum og mögulega fjölga sjálfboðaliðum,“ heldur Halla áfram.  

Sunnudaginn 14. september fer fram kaffihúsaspjall með áhrifafólki úr ýmsum geirum, svo sem úr stjórnmálum og íþróttahreyfingunni. Á meðal þeirra sem hafa boðað komu sína eru þingmennirnir Jón Pétur Zimsen, Pawel Bartoszek, Sigurður Helgi Pálmason, Sigurþóra Steinunn og Bergsdóttir og Ingvar Þóroddsson. 

 

Félagsstarf opnar dyr 

Halla kynntist Ungmennaráði UMFÍ og gildi félagsstarfa þegar hún mætti á Ungmennaráðstefnu UMFÍ í Borgarnesi árið 2019.  

„Ég hef reyndar alltaf haft mjög gaman af félagsstarfi, var formaður klúbba í framhaldsskóla og unnið að jafnrétti og ýmsu fleiru. Ég vildi fara lengra inn í félagsstörf í íþróttahreyfingunni í meiri mæli en sem iðkandi. Ég gerði mér hins vegar ekki grein fyrir því að það er hægt í gegnum félagsstarf. Þar er hægt að hafa áhrif og á ungmennaráðstefnunni kynntist ég þeirri hlið. Í gegnum ráðið sá ég að ég gat haft áhrif á framvindu og starfsemi íþróttahreyfingarinnar á sama tíma og ég væri að kynnast nýju fólki.“ 

Halla segist hafa lært heilmikið á vinnu sinni í Ungmennaráði UMFÍ.  

„Í fyrsta lagi hef ég kynnst fullt af skemmtilegu og frábæru fólki. Síðan hef ég einnig öðlast meira sjálfstraust. Í félagsstarfi eins og ungmennaráði hef ég lært að skipuleggja viðburði og ráðstefnur, tala fyrir framan fólk og lært að hafa áhrif. Að því leyti styrkir skipulagning ungmennaráðstefnu okkur öll í ráðinu og eflir gildin sem við viljum vinna eftir, samstöðu, lýðræði, vináttu og styrkir félagslega hæfni okkar,“ segir Halla Margrét Jónsdóttir. 

 

Takmarkaður fjöldi

Fjöldi þátttakenda á ráðstefnuna Ungt fólk og lýðheilsa er takmarkaður og því borgar sig ekki að bíða of lengi með skráningu. Æskilegt er að fullorðinn einstaklingur og/eða starfsmaður ungmennaráðs/félagasamtaka fylgi þátttakendum yngri en 18 ára. Viðburðurinn gefur starfsfólki ekki síður tækifæri en þátttakendum til þess að kynnast og bera saman starf og verkefni eftir landssvæðum og félagasamtökum.  

Athygli er vakin á því að viðburðurinn er með öllu vímuefnalaus og á það einnig við um rafsígarettur og nikótínpúða. 

 

Skráning 

Þátttökugjald er 15.000 kr. fyrir hvern þátttakanda. Innifalið er gisting í tvær nætur, 2x kvöldmatur, 2x morgunmatur, 2x hádegismatur og 2x hressing. Ráðstefnugögn og ferðakostnaður að mestu og/eða öllu leyti. Rúta fer frá þjónustumiðstöð UMFÍ í Reykjavík á föstudeginum og til baka á sunnudeginum sem þátttakendur eru hvattir til þess að nýta sér. Ferðatilhögun frá Akureyri og Egilsstöðum fer eftir fjölda skráninga og er því í vinnslu. Við hvetjum því þátttakendur að bíða ekki of lengi með að skrá sig svo hægt sé að staðfesta og ganga frá öllum ferðatilhögunum í tíma.  

Skráning er í fullum gangi og stendur til í síðasta lagi til 8. september, eða þar til verður uppselt. 

Ráðstefnan er styrkt af Erasmus+, sem er mennta-, æskulýðs- og íþróttaætlun Evrópusambandsins (ESB). 

Allt um Erasmus+

 

Enn opið fyrir skráningu

Skráning á Ungmennaráðstefnuna er í fullum gangi til 8. september. Fjöldi er takmarkaður svo fyrirhyggja er best!  

Sjáumst á Ungt fólk og lýðheilsu - félagslegir töfrar!

 

Ítarlegri upplýsingar um ráðstefnuna Ungt fólk og lýðheilsa er að finna á umfi.is