Fara á efnissvæði
20. maí 2024

„Hlaupin gefa mér mikið“

Hugrún Árnadóttir er á meðal elstu meðlima í skokkhópi Hauka í Hafnarfirði. Hún var tæplega sextug þegar hún byrjaði að hlaupa.

Hugrún er fædd á Patreksfirði árið 1955 og stundaði þar hefðbundnar skólaíþróttir. Hún hafði áhuga á körfubolta en þótti helst til lágvaxin. Ekkert annað var í boði í æsku Hugrúnar. 

Öðru máli gegndi þegar hún skutlaði dóttur sinni um allar trissur í frjálsum íþróttum. Þríburar bættust síðar í barnahópinn og því hafði hún nægu að sinna. 

Árið 1997 flutti fjölskyldan í Hafnarfjörð og þar kviknaði áhugi Hugrúnar á hlaupum hjá Haukum. 

„Strákarnir mínir voru mikið í fótbolta hjá Haukum. Þar var talað um að stofna skokkhóp í kringum 2007. Ég hélt nú ekki! Hafði ekki einu sinni hlaupið á milli ljósastaura. En síðan horfði ég hýru auga til hópsins. Mig langaði að gera eitthvað í frístundum, keypti kort í líkamsrækt og fór í sund – og geri það enn og syndi 500 metra tvisvar í viku. Ég lét svo ekki vaða fyrr en árið 2012 þegar við skráðum okkur vinkonurnar í skokkhópinn. Ég fór á byrjendanámskeið vorið 2012 og tók þau þrjú vor í röð. En ég hætti alltaf á haustin þegar færðin fór að versna. Síðan tók ég mig á og fór að skokka allt árið um kring. Það er mjög skemmtilegt og gefur mér mikið, sérstaklega andlega, og svo er félagsskapurinn góður. Hreyfingin styrkir sálina,“ segir Hugrún, sem nú hefur farið nokkrum sinnum erlendis í bæði göngur og hlaupaferðir. 

Hugrún fagnar 69 ára afmæli á árinu. Hún er samt ekki elst í skokkhópnum. Sá elsti er fæddur árið 1940 og því 84 ára á þessu ári. 

Í febrúar á þessu ári var Hugrún í hópi fólks sem fór bókstaflega í hæstu hæðir í Afríku.

„Við fórum tvær með unga fólkinu til Tansaníu, vinkona mín og ég. Hún fagnaði 70 ára afmæli í febrúar. Við stóðum saman á toppi Meru 21. febrúar og á Kilimanjaro sex dögum síðar. Það var góð áskorun og við kláruðum þetta saman,“ segir Hugrún og mælir eindregið með að fólk hreyfi sig.

 

Enn meiri hreyfing í Skinfaxa

Rætt er við Hugrúnu í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þema blaðsins er heilsuefling 60 ára og eldri.  

Í blaðinu er rætt við fjölda fólk um Landsmót UMFÍ 50+ sem haldið verður dagana 6. - 9. júní, rætt við Flemming Jessen, sem er einn af upphafsmönnum mótsins, rætt er við Petru Ruth Rúnarsdóttir, formann Þróttar í Vogum, sem ber hita og þunga af mótinu, rætt er um heilsueflinguna, hver áhrif hreyfingar eru á líkamlegt og andlegt heilbrigði fólk yfir miðjum aldri og svo má lengi telja. 

Skráning er í fullum gangi á Landsmót UMFÍ 50+ á www.umfi.is. Hefurðu skoðað allar greinarnar sem eru í boði?

Skoða greinarnar

 

Lesa meira í Skinfaxa

Á meðal efnis í blaðinu:

  • Kraftur í heilsueflingu eldra fólks
  • Hamar býður upp á líkamsrækt í Hamarsporti
  • Landsmótið á Laugarvatni í lit
  • Fjörug í fimleikum
  • Borgin lyftir upp lýðheilsustarfi eldri borgara
  • Verðmæti í heilsueflingu 60+
  • Hvetur eldra fólk til að hreyfa sig
  • Mikil ásókn í boccia á Landsmóti UMFÍ 50+
  • Mikilvæg störf í hreyfingunni

Auk þess er miklu meira efni um allt það fjöruga og góða starf sem unnið er að innan íþrótta- og ungmennaféalgshreyfingarinnar.

Þú getur smellt á hlekkinn hér að neðan og lesið allt blaðið og viðtölin sömuleiðis.

Hugrún prýðir forsíðuna og tók ljósmyndarinn Hulda Margrét myndirnar af henni.

Lesa nýjasta tölublað Skinfaxa