Fara á efnissvæði
10. júlí 2023

Kenndi Neymar og Messi - kemur á Unglingalandsmót

Margfaldur heimsmeistari í Freestyle Football

„Ég hlakka til að koma og kenna fótboltalistir með frjálsri aðferð (e. freestyle football) á Unglingalandsmótinu. Þar munu þátttakendur læra ýmsa tækni til að nýta líkamann við að halda fótbolta á lofti og skemmta sér við æfingarnar. Tæknin nýtist líka vel í knattspyrnuleikjum,“ segir Andrew Henderson, sem verður með vinnubúðir í Freestyle Football á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina.

Andrew Henderson keppti á yngri árum í rugby en meiddist illa á fæti árið 2008. Læknar töldu hann verða að setja íþróttaskóna á hilluna og íþróttaferillinn líklega á enda. Þá var hann aðeins 15 ára. Andew neitaði hins vegar að gefast upp, lagði hart að sér, tók upp á því að sérhæfa sig í  „freestyle football“ og landaði Englandsmeistaratitli tveimur árum síðar. Hann varð sá yngsti sem náð hefur þeim titli eða aðeins 17 ára. Tveimur árum síðar varð Andrew heimsmeistari í greininni og hefur hann nú fimm slíka titla á sinni skortöflu. Enginn annar hefur hampað jafn mörgum titlum í „freestyle football.“

Andrew á auk þess nokkur met sem skráð eru í heimsmetabók Guinness.

 

Vinnur með fótboltastjörnum

Andrew Hendersen hefur nú um árabil kennt fótboltaaðferðina og ferðast landa á milli.

„Ég hef nú komið til meira en fimmtíu landa til að sýna listir mínar, keppa á heimsmeistaramótum og unnið með þekktasta knattspyrnufólki í heimi,“ segir hann en á meðal þeirra sem hann telur upp eru knattspyrnusnillingarnir Ronaldo, Messi, Neymar og margir fleiri. Neymar er einmitt með Andrew á myndinni hér að ofan. 

Þótt Andrew hafi ferðast heimshorna á milli þá hefur hann aldrei áður komið til Íslands og er afar spenntur fyrir heimsókninni.

 

Vinnubúðir fyrir krakka á Unglingalandsmótinu

Andrew verður með vinnubúðir á Unglingalandsmótinu og mun þar kenna þátttakendum mótsins að verða betri í boltagreinum alla helgina.

En hvað munu þátttakendur læra og hvernig nýtist það þeim?

„Þau sem koma í vinnubúðirnar munu læra ýmsa tækni við að nýta líkamann til að halda bolta á lofti en skemmta sér við æfingarnar. Þau munu líka læra margt sem nýtist þeim í knattspyrnuleikjum til framtíðar,“ segir hann.

 

Um Unglingalandsmótið

Boðið er upp á 19 íþróttagreinar á Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fer á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina og fjölda annarra viðburða og greina sem öll fjölskyldan getur tekið þátt í. Að auki verða tónleikar öll kvöldin og nóg að gera.

Á meðal greinanna eru hlaupaskotfimi (biathlon), bogfimi, frisbígolf, frjálsar íþróttir, golf, grasblak, grashandbolti, hestaíþróttir, hjólreiðar, júdó, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, motocross og pílukast, skák, stafsetning, sund og upplestur.

Auk þess verður kynning á bandý, sandkastalagerð, víðavangshlaup, barnaskemmtun, glíma, leikjagarður og margt fleira.

Á meðal tónlistarfólksins á kvöldin koma fram: Emmsjé Gauti, Guðrún Árný, Magni Ásgeirsson, Herra Hnetusmjör, DJ Heisi, Danshljómsveit Dósa, Jón Arnór & Baldur og fleiri.

Aðeins kostar 8.900 krónur fyrir hvern þátttakanda á Unglingalandsmóti UMFÍ. Inni í miðaverðinu er aðgangur að tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna alla helgina (fyrir utan rafmagn), aðgangur á alla viðburði, tónleika, frítt í sund í Skagafirði og margt fleira.

Á Unglingalandsmót UMFÍ er hægt að skrá sig eftir íþróttahéraði og sambandsaðilum UMFÍ. Það er líka hægt að gera án héraðs.

Sambandsaðilar UMFÍ styrkja sumir þátttakendur á sínu svæði að hluta eða öllu leyti. Aðrir veita þátttakendur á sínu svæði ýmsan varning til viðbótar, svo sem peysur eða boli merkta sambandsaðilanum. Þess vegna er mikilvægt að velja rétt íþróttahérað við skráningu.

 

Skoða dagskrá Unglingalandsmóts UMFÍ hér